Ferill 554. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 554 . mál.


1219. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Þorkel Helgason, aðstoðarmann heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Margréti Tómasdóttur, framkvæmdastjóra Atvinnuleysistryggingasjóðs, Dögg Pálsdóttur, skrifstofustjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Pétur Sigurðsson, formann Atvinnuleysistryggingasjóðs, frá fjármálaráðuneyti Halldór Árnason skrifstofustjóra og Ólaf Hjálmarsson deildarstjóra, frá Landssambandi aldraðra Ólaf Jónsson formann og Guðríði Ólafsdóttur framkvæmdastjóra og frá Sjálfsbjörgu Jóhann Pétur Sveinsson lögfræðing, Tryggva Friðjónsson framkvæmdastjóra, Arnór Pétursson fulltrúa og Sigurrós M. Sigurjónsdóttur fulltrúa. Umsagnir bárust frá ASÍ, Bandalagi íslenskra sérskólanema, BSRB, BHMR, Búnaðarfélagi Íslands, fjármálaráðuneytinu, Hinu íslenska kennarafélagi, Kennarasambandi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Landssamtökum atvinnulausra, Læknafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sjálfsbjörgu, Stéttarsambandi bænda, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, VSÍ og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Nefndin leggur til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu sem snúa að fjórum atriðum. Í fyrsta lagi verði 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, felld brott en meginhluti hennar verði felldur inn í 1. gr. laganna. Í öðru lagi verði uppsetningu og orðalagi laganna breytt þannig að þau geti heyrt undir hvern þann ráðherra sem ákveðið er í reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969. Er það gert vegna þess að fyrirhugað er að flytja atvinnuleysistryggingar til félagsmálaráðuneytis. Atvinnuleysistryggingar þykja eiga betur heima í því ráðuneyti sem fer með málefni er varða atvinnuleysi. Stefnt er að því að þessi breyting verði um næstu áramót. Í þriðja lagi er lögð til breyting á 11. gr. frumvarpsins sem varðar frádrátt elli- og örorkulífeyris, sem og örorkustyrks, frá atvinnuleysisbótum. Í fjórða lagi er lögð til breyting á gildistökuákvæði. Verður hér á eftir gerð grein fyrir hverri breytingartillögu um sig.
    Lagðar eru til tvær breytingar á 1. gr. Annars vegar komi orðið „ráðherra“ í stað „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“, sbr. skýringar hér að framan. Hins vegar bætist við ný málsgrein sem áður var efnislega 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
    Lagt er til að 2. gr. verði breytt þannig að 3. gr. laganna falli brott ásamt 2. og 4. gr.
    Lögð er til breyting á 4. gr. í samræmi við það sem áður hefur verið sagt um flutning atvinnuleysistrygginga til félagsmálaráðherra. Skal Tryggingastofnun ríkisins falið að gegna ákveðnum verkefnum nema ráðherra ákveði annað. Þá er lagt til að við 4. gr. bætist tvær málsgreinar sem eru samhljóða 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna fyrir utan að síðari málslið 2. mgr. 7. gr. er sleppt en þar er kveðið á um að ráðherra skeri úr ágreiningi ef ekki næst samkomulag um þóknun til Tryggingastofnunar. Er lagt til að ákvæðinu verði sleppt vegna þess að samkvæmt breytingartillögum nefndarinnar gæti niðurstaðan orðið sú að um tvo ráðherra yrði að ræða.
    Þá er lögð til breyting á 6. gr. en efni 3.–5. tölul. á heima í einum tölulið.
    Lögð er til breyting á 10. gr. í samræmi við væntanlegan flutning atvinnuleysistrygginga milli ráðuneyta.
    Lagt er til að 11. gr. verði breytt þannig að elli- og örorkulífeyrir, svo og örorkustyrkur, skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum. Það sem komi til frádráttar verði því einungis grunnlífeyrir og ígildi hans en ekki aðrar bætur lífeyristrygginga.
    Lögð er til leiðrétting á 12. gr.
    Lögð er til breyting á 13. gr. og vísast til skýringa í 5. tölul. hér að framan.
    Loks er lögð til breyting á gildistöku laganna í 17. gr. en lagt er til að þau öðlist gildi 1. júlí nk. Ákvæði um sjálfstætt starfandi einstaklinga (2. mgr. 1. gr.) taki þó ekki gildi fyrr en 1. okt. nk. en vankantar munu vera á að það taki gildi fyrr sökum tæknilegra ástæðna.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 6. maí 1993.



Sigbjörn Gunnarsson,

Sólveig Pétursdóttir.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.


form., frsm.



Sigríður A. Þórðardóttir.

Björn Bjarnason.