Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


116. löggjafarþing 1992–1993.
Nr. 16/116.

Þskj. 1230  —  232. mál.


Þingsályktun

um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna samkvæmt eftirfarandi framkvæmdaáætlun að aðgerðum til að ná fram jafnrétti kynjanna á tímabilinu 1993–1997.

FRAMKVÆMDAÁÆTLUN
A. Starfsmannamál ríkisins.


1. Ákvæði um auglýsingar á lausum stöðum hjá ríkinu.
    Ítrekuð verði sú skylda ríkisstofnana að auglýsa allar lausar stöður til umsóknar. Í auglýsingu um starf skal koma fram hvatning til þess kynsins sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein eða hvatning um að konur jafnt sem karlar sæki um starfið.

2. Ákvæði um ráðningar í störf.
    Það kynið, sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein, skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningar í störf þegar umsækjandi er jafnhæfur eða hæfari.

3. Almennt ákvæði um starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Ráðuneyti og ríkisstofnanir móti sérstaka stefnu í starfsmenntunarmálum. Í henni skal þess gætt að kynin hafi jafna möguleika til framhaldsmenntunar, starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru í því skyni að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings annarra starfa.

4. Ákvæði um hlut kvenna í nefndum, stjórnum og ráðum.
    Ríkisstjórninni er falið að ná því markmiði að hlutur kvenna í nefndum á vegum ríkisins verði 30% í lok gildistíma áætlunarinnar. Hér er átt við heildarþátttöku í nefndum á vegum hvers ráðuneytis, en ekki miðað við 30% í hverri nefnd. Þegar leitað er eftir tilnefningu við skipun í opinbera nefnd verði framvegis óskað eftir nafni karls og konu þannig að markmiði þessu verði náð. Jafnréttisráð taki árlega saman tölfræðilegt yfirlit um hlutfall kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum.

5. Sveigjanlegur vinnutími.
    Í þeim tilgangi að gera starfsmönnum kleift að samræma betur fjölskylduábyrgð og þátttöku í atvinnulífi skulu ráðuneyti og ríkisstofnanir gefa starfsmönnum kost á sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem við verður komið.

6. Bifreiðastyrkir.
    Í 6. gr. jafnréttislaga er kveðið á um að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi, bifreiðastyrki, vinnuaðstæður og veitingu hvers konar hlunninda. Störf skulu því skilgreind með hliðsjón af því hvort bílastyrkja sé þörf.

7. Starfsmat — starfslýsingar.
    Kerfisbundið mat á störfum ríkisstarfsmanna fari fram í því skyni að framfylgja 4. gr. jafnréttislaga sem kveður á um að greiða skuli konum og körlum jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.
    Taka skal tillit til reynslu og þekkingar sem starfsmenn hafa öðlast, t.d. við ólaunuð umönnunar-, uppeldis- og heimilisstörf. Öllum atvinnurekendum ber skylda til að framfylgja ákvæði 4. gr. jafnréttislaganna. Lagt er fyrir stjórnvöld að þau framfylgi ákvæðinu.

B. Verkefni ráðuneyta og stofnana á þeirra vegum.

    Hér fer á eftir kafli varðandi einstök ráðuneyti og stofnanir á þeirra vegum og eru ráðuneytin hvert um sig ábyrg fyrir framkvæmd einstakra liða sem undir þau heyra.

1. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið.
1.1. Staða kynja hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins.
    Markvisst verði unnið að því að ráða fleiri konur í störf rannsóknarlögreglumanna hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Auglýst verði eftir konum til starfa hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins til að ná þessu markmiði, sbr. 5. og 7. gr. jafnréttislaga.

1.2. Nauðgunarbrot.
    Á árinu 1984 skipaði dómsmálaráðherra nefnd sem fékk það hlutverk að kanna rannsóknir og meðferð nauðgunarmála og gera tillögur til úrbóta. Eftirfarandi tillögur nefndarinnar koma til framkvæmda á gildistíma þessarar áætlunar:

1.2.1. Meðferð opinberra mála.
    Dregið verði úr skaðlegum áhrifum kynferðisbrota og málsmeðferðar á brotaþola og tryggðar bætur fyrir fjártjón og miska. Jafnframt verði refsivörslukerfið styrkt í baráttunni við refsiverð brot.

1.2.2. Haldin verði námskeið fyrir lögreglumenn og starfsfólk heilbrigðisþjónustu.
    Jafnframt verði fræðsla varðandi kynferðisafbrot og heimilisofbeldi aukin í grunnnámi lögreglumanna og verði þáttur í endurmenntunarnámskeiðum þeirra.

1.3. Staða kvenna innan kirkjunnar.
    Dómsmálaráðuneytið beini þeim tilmælum til biskupsstofu að staða kvenna innan kirkjunnar verði sérstaklega skoðuð. Einkum verði kannað hlutfall kynjanna í ýmsum nefndum og ráðum innan kirkjunnar, svo sem sóknarnefndum og kirkjuráði. Óskað verði eftir því að biskupsstofa beiti sér fyrir því með tilmælum og fræðslu að unnið verði að því að jafna hlutfall kynjanna í trúnaðarstörfum hjá þjóðkirkjunni.

2. Félagsmálaráðuneytið.
2.1. Staða karla í breyttu samfélagi.
    Skipuð verði sérstök ráðgjafarnefnd til tveggja ára sem hafi það hlutverk að virkja karla í jafnréttisumræðunni þannig að sjónarmið þeirra komist til skila. Einum starfsmanni skrifstofu jafnréttismála verði falið að fylgja ákvörðunum nefndarinnar eftir.

2.2. Jafnréttisráðgjafi.
    Ráðinn verði jafnréttisráðgjafi á tímabilinu til reynslu. Hlutverk jafnréttisráðgjafa verði að vinna að leiðréttingu á stöðu kvenna í fyrirtækjum og stofnunum. Enn fremur vinni hann í samvinnu við atvinnuráðgjafa að fjölgun atvinnutækifæra fyrir konur. Jafnframt sinni jafnréttisráðgjafi, eftir því sem þörf krefur, jafnréttisstarfi á sviði menntamála og fjölskyldu-, félags- og heilbrigðismála í samvinnu við jafnréttisnefndir og starfsfólk viðkomandi ráðuneyta og stofnana.
    Mikilvægt er að starf jafnréttisráðgjafa efli starfsemi atvinnuþróunarfélaga og atvinnuráðgjafa. Komið verði á fót, til reynslu, miðstöð í einu kjördæmi þar sem saman starfi atvinnuráðgjafi og jafnréttisráðgjafi sem vinni m.a. að málefnum kvenna í landbúnaði.

2.3. Vinnuvernd.
2.3.1. Úttekt á hefðbundnum kvennastörfum.
    Gerð verði úttekt á nokkrum hefðbundnum kvennastörfum, svo sem umönnunar- og þjónustustörfum, með það að markmiði að draga fram tengslin milli atvinnu annars vegar og streitu, álags og slitsjúkdóma hins vegar. Sérstakur gaumur verði gefinn að einhæfum störfum. Með niðurstöðum úttektarinnar verði lagður grunnur að tillögum til að bæta vinnuumhverfið. Jafnframt verði lögð áhersla á kynningu og umræðu í þeim tilgangi að auka skilning á atvinnusjúkdómum sem tengjast hefðbundnum kvennastörfum og koma í veg fyrir þá.

2.3.2. Könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum.
    Gerð verði könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum á Íslandi og umfangi hennar. Á grundvelli könnunarinnar og þeirrar þekkingar sem liggur fyrir hjá öðrum þjóðum verði unnið markvisst að því að auka umræðu um og vinna gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Sett verði ákvæði varðandi kynferðislega áreitni í viðeigandi löggjöf.

2.4. Launamunur kynjanna.
    Á árunum 1993 og 1994 verði valdar fimm stórar ríkisstofnanir og athuguð kjör karla og kvenna, þ.e. laun, aðrar greiðslur og fríðindi innan þeirra. Verkefnið verði unnið í samráði við norræna jafnlaunaverkefnið á Íslandi.

2.5. Starfsmenntun.
    Lög nr. 19/1992, um starfsmenntun í atvinnulífinu, verði nýtt sérstaklega til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaðnum og stuðla að auknu atvinnuöryggi þeirra. Á undanförnum árum hefur félagsmálaráðuneytið stutt starfsmenntunarnámskeið fyrir ófaglærðar konur, sem t.d. annast ræstingar og standa að matvælaframleiðslu. Áfram skal lögð áhersla á stuðning ráðuneytisins við slíkt námskeiðahald.

2.6. Orsakir brottflutnings kvenna úr dreifbýli í þéttbýli.
    Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands verði falin nánari úrvinnsla gagna um búferlaflutninga, með sérstöku tilliti til kynferðis þeirra sem flutt hafa af landsbyggðinni eða hafa slíkan flutning í hyggju. Stofnunin hefur kannað ástæður búferlaflutninga fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins.

2.7. Rekstur kvennaathvarfs og annarra félagasamtaka sem aðstoða konur sem þolendur ofbeldis og sifjaspella.
    Skipuð verði nefnd sem geri úttekt á og setji fram tillögur um það hvernig tryggja megi sem best rekstrargrundvöll félagasamtaka sem aðstoða konur og börn sem eru þolendur ofbeldis og sifjaspella. Í henni eigi sæti fulltrúar dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og hagsmunasamtaka.

2.8. Stefnumótun í málefnum fjölskyldunnar.
    Unnið skal að heildarstefnumótun í málefnum fjölskyldunnar. Landsnefnd um alþjóðaár fjölskyldunnar 1994 mun leggja fram tillögur þar að lútandi. Í tillögunum verði sérstök áhersla lögð á stuðningsaðgerðir varðandi uppeldi og umönnun meðlima fjölskyldunnar. Jafnframt skal þess gætt að einstaklingar innan fjölskyldunnar eigi kost á að taka þátt í atvinnulífinu samhliða heimilisstörfum.

3. Fjármálaráðuneytið.
3.1. Stjórnsýslufræðsla ríkisins.
3.1.1. Sérstök námskeið fyrir konur.
    Stjórnsýslufræðsla ríkisins skipuleggi sérstök námskeið fyrir konur sem starfa hjá ríkinu og hafi það að markmiði að auka hæfni þeirra og veiti þeim möguleika á stöðuhækkunum.

3.1.2. Sérstök námskeið fyrir stjórnendur.
    Skipulögð verði sérstök námskeið fyrir stjórnendur hjá hinu opinbera þar sem lögð verði áhersla á jafnrétti og samskipti kynjanna.

3.2. Nefndaskipan.
    Í nefndum á vegum fjármálaráðuneytis, er fjalla um launakjör, þóknanir og hlunnindi, verði skipan háttað þannig að hún samrýmist ákvæðum 12. gr. laga nr. 28/1991.

3.3. Lög um tekjuskatt og eignarskatt.
    Við endurskoðun núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt verði gætt jafnréttissjónarmiða karla og kvenna.

3.4. Lög um lífeyrissjóði.
    Sett verði lög um lífeyrissjóði. Við þá lagasetningu verði tillit tekið til jafnréttis kvenna og karla, jafnframt verði réttindi heimavinnandi fólks athuguð sérstaklega.

3.5. Gagnasöfnun.
    Fjármálaráðuneyti geri reglulega, í samráði við félagsmálaráðuneyti, athuganir á starfskjörum ríkisstarfsmanna. Þessar athuganir verði gerðar með tilliti til karla og kvenna.

4. Forsætisráðuneytið.
4.1. Fjarvinnslustofur.
    Fjarvinnsla verði efld og Byggðastofnun verði falið að vekja athygli opinberra stofnana á verkefnum sem henta til fjarvinnslu og aðstoða þær eins og þurfa þykir.

4.2. Laun kvenna og karla.
    Þjóðhagsstofnun gefi áfram reglulega út yfirlitsskýrslu um tekjur einstaklinga. Þar komi fram atriði eins og tekjur eftir atvinnugreinum og starfsstéttum, aldri, kyni og enn fremur tekjudreifing.4.3. Efling heimilisiðnaðar.
    Heimilisiðnaður og verkmenntun verði efld og stuðningur við hönnun í smáiðnaði verði aukinn. Til hliðsjónar verði hafðar niðurstöður nefndar um eflingu heimilisiðnaðar, en nefndin hefur m.a. kynnt sér atvinnumál kvenna á landsbyggðinni og þróun smáiðnaðar á Norðurlöndum.

5. Hagstofan.
5.1. Tölfræðihandbók um stöðu kvenna og karla.
    Hagstofunni verði falið að gefa reglubundið út litla handbók sem hafi að geyma tölfræðilegar upplýsingar um stöðu kvenna og karla hér á landi, en Hagstofan tekur þátt í norrænu verkefni um útgáfu slíkra upplýsinga.
    Við reglubundna hagskýrslugerð verði, svo sem unnt er og þar sem það á við, unnar og birtar tölur fyrir bæði kynin sérstaklega.

5.2. Tölfræðileg úttekt á sifjamálum.
    Hagstofan haldi áfram og auki við tölfræðilegar upplýsingar um sifjamál.

5.3. Eignarréttur að fasteignum.
    Hagstofu Íslands og Fasteignamati ríkisins verði falið að vinna úttekt á því hverjir eigi fasteignir hér á landi. Tilgangur slíkrar úttektar verði að vekja athygli kvenna á eignastöðu sinni. Við skýrslugerðina ber að gæta þess að engir einstaklingar séu þar greinanlegir.

5.4. Tölfræðileg úttekt á launamun kvenna og karla.
    Lokið verði við úrvinnslu gagna Hagstofunnar um launamun kynjanna og útgáfa fari sem fyrst fram.

6. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
6.1. Lög um fæðingarorlof.
    Á gildistíma þessarar áætlunar verði lögfestar reglur sem tryggja jafnan rétt foreldra til töku fæðingarorlofs og til greiðslna í fæðingarorlofi óháð því hvort um er að ræða opinberan starfsmann eða starfsmann á almennum vinnumarkaði. Jafnframt verði gildandi lög um fæðingarorlof endurskoðuð að því er varðar sjálfstæðan rétt feðra til töku fæðingarorlofs.

6.2. Konur og möguleikar þeirra til réttinda hjá Tryggingastofnun ríkisins.
    Athugað verði hvort jafnrétti ríki við útreikninga örorkubóta hjá Tryggingastofnun ríkisins, þ.e. hvort hefðbundið mat á hlutverkum kynja sé hugsanlega lagt til grundvallar.

7. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
7.1. Könnun á stöðu kvenna í iðnaði.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipi sérstaka nefnd til þess að gera úttekt á stöðu kvenna í iðnaði og móta tillögur í þá átt að jafna hlut kynjanna á öllum starfs- og stjórnunarstigum.

7.2. Fræðslustarfsemi.
    Unnið verði áfram í samráði við Iðntæknistofnun að námskeiðum sem nýtast konum sérstaklega. Dæmi um slík námskeið eru: Verkstjórn, stofnun og rekstur fyrirtækja, fjarnám í ferðaþjónustu og leiðbeinendanámskeið í starfsfræðslu.

7.2.1. Námskeið fyrir konur um frumkvæði í atvinnulífinu.
    Lagt er til að Iðntæknistofnun fái sérstaka fjárveitingu til að undirbúa og efna til tveggja daga námskeiða fyrir konur í sveitarfélögum og dreifbýli. Fjallað verði fyrst og fremst um stefnumótun og frumkvæði, leiðir til að meta hugmyndir með hliðsjón af mismunandi forsendum og aðferðum. Einnig verði kennt að gera verk-, tíma- og kostnaðaráætlanir þannig að hugmyndunum sé breytt í framkvæmanleg verkefni.

7.3. Áherslur.
    Lögð verði áhersla á endurmenntun og starfsmenntun fyrir konur er vilja fara að nýju út á atvinnumarkaðinn og takast á hendur störf í iðnaði.
    Efld verði fræðsla um störf í iðnaði og þjónustugreinum, á þann veg að þau höfði ekki síður til kvenna en karla og mætti slík fræðsla verða til þess að hvetja konur til starfa í óhefðbundnum kvennagreinum.
    Stuðlað verði að því að þekking og menntun kvenna nýtist að jöfnu á við karla við ákvarðanatöku og stjórnunarstöður hinna ýmsu fyrirtækja og stofnana iðnaðarins.

7.4. Þróunarverkefni.
    Hafið verði fjögurra ára þróunarverkefni í einu byggðarlagi með það að markmiði að fjölga atvinnutækifærum fyrir konur. Verkefnið verði unnið m.a. í samvinnu við atvinnuráðgjafa svæðisins og Byggðastofnun.

7.5. Jafnrétti til stjórnunarstarfa í bönkum.
    Ráðuneytið fylgi því eftir við ríkisbankana að gerð verði sérstök áætlun um fjölgun kvenna í stjórnunarstöðum hjá bönkum. Samband íslenskra bankamanna er einnig aðili að þessari áætlunargerð og er að henni unnið.

8. Landbúnaðarráðuneytið.
8.1. Félagsleg réttindi kvenna í landbúnaði.
    Landbúnaðarráðuneytið athugi ýmis opinber réttindi kvenna í landbúnaði og geri tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf. Samhliða þessari athugun verði kannaðir möguleikar kvenna á landsbyggðinni til að njóta ýmiss konar félagslegrar þjónustu sem sveitarfélögum ber að inna af hendi. Gerðar verði tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf.

8.2. Atvinnumál kvenna í landbúnaði.
    Landbúnaðarráðuneytið styður það markmið að gera átak til að fjölga atvinnutækifærum kvenna á landsbyggðinni og er reiðubúið til samstarfs við félagasamtök landbúnaðarins við það verkefni.
    Í tengslum við átak í atvinnumálum kvenna til sveita verði skipulögð námskeið í stofnun og rekstri fyrirtækja. Námskeiðin taki mið af viðfangsefninu á hverjum stað.

8.3. Fræðsla fyrir konur í landbúnaði.
    Landbúnaðarráðuneytið beiti sér fyrir fræðslu fyrir konur í landbúnaði. Fræðslan taki til félagskerfis landbúnaðarins, starfa Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Jafnframt verði staða landbúnaðarins kynnt og ýmis félagsleg réttindi kvenna á landsbyggðinni.
    Leitast verði við að fjölga konum í trúnaðarstörfum á vegum hagsmunasamtaka bænda.

9. Menntamálaráðuneytið.
9.1. Samfelldur skóladagur.
    Stefnt verður að því að koma á samfelldum skóladegi í grunnskólum og að daglegur skólatími yngstu barnanna og árlegur kennslutími verði lengdur.

9.2. Menntamálaráðuneytið vinnur samkvæmt tillögum nefndar um eflingu jafnréttis kynjanna á öllum skólastigum. Nefndin starfaði á vegum ráðuneytisins og skilaði hún áliti um framkvæmd jafnréttisfræðslu árið 1990. Stefnt er að því að framkvæmdin taki fjögur ár. Helstu atriðin eru:

9.2.1. Fræðslufundir og námskeið.
    Starfsfólk allra skólastiga eigi kost á fræðslufundum og námskeiðum um jafnrétti og jafna stöðu kynja í skólum. Þar verði fjallað um stöðu kynja í þjóðfélaginu, starfshætti í skólum, samskipti, sjálfsvitund nemenda o.fl. Þetta á einnig við um fóstru- og kennaranema.

9.2.2. Starfsmannastefna skóla.
    Starfsmannastefna skóla verði mörkuð með hliðsjón af því að störf innan þeirra séu ekki kynbundin svo að fyrirmyndir nemenda séu ekki of einhæfar.

9.2.3. Námsefni.
    Náms- og kennslugögn séu án kynjafordóma og staðalmynda og jafnan samin og endurskoðuð með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.

9.2.4. Náms- og starfsfræðsla.
    Náms- og starfsfræðsla fléttist inn í nám á öllum skólastigum en verði sérstakur þáttur í námi eldri nemenda grunnskóla og í framhaldsskólum.

9.2.5. Nám í fjölskyldufræðum.
    Í grunn- og framhaldsskólum verði boðið upp á nám í fjölskyldufræðum sem felist m.a. í umfjöllun um stofnun, umhirðu og rekstur heimilis, næringarfræði, barneignir, uppeldi og samskipti kynjanna.

9.2.6. Fræðsluefni fyrir foreldra.
    Samið verði fræðsluefni fyrir foreldra og forráðamenn barna um stöðu kynja í skólum.

9.2.7. Á háskólastigi verði kennsla og rannsóknir í kvennafræðum efldar.

9.2.8. Skipun framkvæmdanefndar.
    Skipuð hefur verið þriggja manna framkvæmdanefnd til þriggja ára. Hlutverk hennar verði m.a. að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu sem mörkuð er í skýrslu starfshópsins um jafna stöðu kynja í skólum og sjá til þess að lögum um jafnrétti og jafna stöðu kvenna og karla, er varðar menntun, sé framfylgt. Nefndin starfi í samvinnu við aðila frá þeim menntastofnunum sem málin varða.

10. Samgönguráðuneytið.
10.1. Störf hjá stofnunum sem falla undir samgönguráðuneytið.
    Í stofnunum, sem falla undir samgönguráðuneytið, er meiri hluti þeirra starfa, sem iðn-, tækni- eða háskólamenntun þarf til, unninn af körlum. Hið sama á við um vinnuflokka. Áfram verður unnið að því að jafna hlut kynjanna í þessum störfum.

11. Sjávarútvegsráðuneytið.
11.1. Gæðaátak í sjávarútvegi.
    Mikill meiri hluti kvenna við sjávarsíðuna um allt land vinnur við fiskiðnað. Í tengslum við gæðaátak sjávarútvegsins, sem nú fer fram, verði sérstaklega skoðað á hvern hátt nýta megi reynslu og þekkingu fiskvinnslukvenna.

11.2. Þjónustustörf tengd sjávarútvegi.
    Á vegum sjávarútvegsráðuneytisins hefur nokkuð verið unnið að því að færa ýmis þjónustustörf tengd sjávarútvegi frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar.
    Lagt er til að áfram verði haldið á þessari braut og að hinar margvíslegu þjónustugreinar tengdar þessari atvinnugrein verði skoðaðar með það í huga að auka fjölbreytni í störfum við sjávarsíðuna. Við þá athugun verði þess sérstaklega gætt að reynsla og hæfni kvenna á viðkomandi stað verði nýtt.

12. Umhverfisráðuneytið.
12.1. Jafnréttisáætlun umhverfisráðuneytisins.
    Umhverfisráðuneytið hefur samið jafnréttisáætlun og hefur hlutaðeigandi stofnunum, sem heyra undir ráðuneytið og hafa 20 starfsmenn eða fleiri, verið falið að semja slíka áætlun.
    Þar sem því verður við komið verður stefnt að því að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum í ráðuneytinu. Boðið verður upp á sveigjanlegan vinnutíma þar sem því verður við komið. Umhverfisráðuneytið vinnur markvisst að því að auka hlut kvenna í nefndum sem tengjast ráðuneytinu og er ávallt vakin athygli á 12. gr. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir og starfshópa.

13. Utanríkisráðuneytið.
13.1. Staða kvenna í utanríkisþjónustunni.
    Utanríkisráðuneytið kanni hvernig auka megi tækifæri kvenna til starfsframa í utanríkisþjónustunni. Í framhaldi af því verði settar fram tillögur um hvernig möguleikar kvenna og karla á þessu sviði verði jafnaðir.
    Settar hafa verið reglur sem auka möguleika á starfsframa ritara. Frekari útfærsla fari fram.

13.2. Konur í þróunarríkjunum.
    Í öllum þróunarverkefnum á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði sérstakur gaumur gefinn að stöðu kvenna. Öll þróunarverkefni taki þannig mið af því að vinna kvenna í þróunarlöndunum er undirstaða viðkomandi samfélags og að bætt staða þeirra er forsenda framþróunar.
    Ráðnar verði konur á vegum Þróunarsamvinnustofnunarinnar til að fylgja slíku starfi eftir.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 1993.