Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 2 . mál.


1241. Frumvarp til

laga

um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum.

(Eftir 2. umr., 7. maí.)



1. gr.


    Sá sem hannar svæðislýsingu smárása í hálfleiðara hefur einkarétt til hagnýtingar hennar samkvæmt lögum þessum.
     Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum er háð því að um nýsköpun sé að ræða, annaðhvort í heild eða að hluta. Skilyrði er að um eigið verk hönnuðar sé að ræða og að svæðislýsingin sé ekki almennt þekkt.

2. gr.


    Verndar samkvæmt lögum þessum njóta íslenskir ríkisborgarar eða þeir sem hafa fasta búsetu hér á landi. Einnig njóta verndar þau fyrirtæki og lögaðilar sem stunda atvinnurekstur hér á landi.
     Iðnaðarráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að réttarvernd samkvæmt lögum þessum skuli einnig taka til ríkisborgara í þeim ríkjum sem veita íslenskum ríkisborgurum sams konar rétt.

3. gr.


    Í einkarétti aðila á hagnýtingu svæðislýsingar smárása í hálfleiðara felst eftirfarandi:
    Réttur til afritunar svæðislýsingar smárása sem nýtur verndar skv. 1. gr. laganna.
    Réttur til hagnýtingar svæðislýsingar smárása í atvinnuskyni.
                   Hagnýting í atvinnuskyni þýðir sala, leiga, langtímaleiga eða önnur notkun svæðislýsingar smárása í atvinnuskyni eða tilboð gerð í þeim tilgangi.
    Réttur til innflutnings svæðislýsingar eða smárásar sem framleidd var með þeirri svæðislýsingu til nota í atvinnuskyni.
    Einkaréttur tekur ekki til:
    afritunar svæðislýsinga smárása sem ekki tengist atvinnurekstri,
    afritunar svæðislýsinga smárása sem gerð er í rannsókna- eða fræðsluskyni,
    svæðislýsingar smárása sem hefur orðið til vegna atferlis sem 2. tölul. þessarar málsgreinar tekur til,
    athafna sem 1. mgr. tekur til eftir að svæðislýsing smárásar, sem nýtur verndar skv. 1. gr., hefur verið sett á markað af rétthafa eða með samþykki hans.

4. gr.


    Einstaklingi, sem eignast hefur smárás sem hefur verið framleidd, hagnýtt í atvinnuskyni eða flutt inn andstætt lögum þessum, er heimilt að hagnýta sér hana í atvinnuskyni eða flytja hana inn svo fremi sem viðkomandi vissi ekki að svo væri ástatt um smárásina né hafði gildar ástæður til að halda að svo væri. Að beiðni rétthafa skal úrskurða honum sanngjarnar bætur ef slík hagnýting í atvinnuskyni eða innflutningur á sér stað eftir að einstaklingur hefur fengið vitneskju um eða hefur gildar ástæður til að halda að smárásin hafi verið framleidd andstætt lögum þessum.

5. gr.


    Einkaréttur til hagnýtingar svæðislýsingar smárása í hálfleiðurum stofnast þegar svæðislýsing er fyrst áfest eða árituð. Einkarétturinn fellur niður 10 árum eftir lok þess almanaksárs er svæðislýsing var fyrst hagnýtt í atvinnuskyni einhvers staðar í heiminum. Einkarétturinn fellur niður 15 árum eftir lok þess almanaksárs er svæðislýsingin var fyrst kynnt ef hún hefur ekki enn þá verið notuð í atvinnuskyni.

6. gr.


    Hverjum þeim, sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn rétti þeim er lög þessi veita aðila, er skylt að bæta honum tjón það er af hefur hlotist. Bætur þessar mega þó aldrei vera hærri en nemur hagnaði hins bótaskylda af brotinu.

7. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum.

8. gr.


    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

9. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.