Ferill 554. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 554 . mál.


1270. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, með síðari breytingum.

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og leitað umsagnar fjölda aðila og vísast í því sambandi til nefndarálits meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar. Nefndin hefur fengið á sinn fund Þorkel Helgason, aðstoðarmann heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Dögg Pálsdóttur, skrifstofustjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Pétur Sigurðsson, stjórnarformann Atvinnuleysistryggingasjóðs, Margréti Tómasdóttur, framkvæmdastjóra Atvinnuleysistryggingasjóðs, Guðríði Ólafsdóttur og Ólaf Jónsson frá Landssambandi aldraðra, Jóhann Pétur Sveinsson, Arnór Pétursson, Sigurrós Sigurjónsdóttur og Tryggva Friðjónsson frá Sjálfsbjörg og fulltrúa fjármálaráðuneytisins, Ólaf Hjálmarsson og Halldór Árnason.
    Að undanförnu hafa komið æ betur í ljós alvarlegir annmarkar á núgildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Frumvarpið bætir að vissu leyti úr nokkrum verstu göllunum en nær þó harla skammt. Stefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í efnahags- og atvinnumálum er að festa í sessi mikið og viðvarandi atvinnuleysi og er brýnt að breytingar á lögunum um atvinnuleysistryggingar taki mið af þeim staðreyndum. Minni hlutinn gerir breytingartillögur við einstakar greinar frumvarpsins í þeim tilgangi að tryggja réttarstöðu atvinnulausra og bæta lífsafkomu þeirra. Námsmönnum er veittur ákveðinn aðgangur að sjóðnum og jafnframt er reynt að tryggja að elli- og örorkulífeyrisþegar, sem eru atvinnulausir, verði ekki fyrir sérstakri skerðingu eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Í fyrsta lagi leggur minni hlutinn til tvær breytingar á 1. gr. frumvarpsins. Annars vegar er gert ráð fyrir að tilgreind verði í greininni þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar svo að sjálfstætt starfandi einstaklingar teljist vera atvinnulausir. Hins vegar er lagt til að við greinina verði bætt nýrri málsgrein um bótarétt þeirra sem lokið hafa eða hætt námi. Mikill fjöldi námsmanna lýkur námi á ári hverju. Æ erfiðara verður fyrir þennan hóp að fá atvinnu, enda þrengist sífellt um á vinnumarkaði og atvinnuleysi eykst stöðugt. Því er nauðsynlegt að huga sérstaklega að stöðu þessa fólks við breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Þá þykir minni hlutanum einnig rétt að kveðið verði á um bótarétt þeirra sem sviptir hafa verið frelsi sínu í a.m.k. 12 mánuði með dómi. Er hér gert ráð fyrir að viðkomandi geti fengið bætur eftir að frelsissviptingu lýkur. Lagt er til að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd greinarinnar að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Í öðru lagi er lagt til að í 4. gr. verði nánar kveðið á um reikningshald Atvinnuleysistryggingasjóðs en gert er í frumvarpinu. Minni hlutinn leggur til sömu breytingar og meiri hluti nefndarinnar til viðbótar því að í greininni verði kveðið á um að útgjöldum sjóðsins vegna manna þeirra sem lokið hafa eða hætt námi og þeirra sem sviptir hafa verið frelsi með dómi annars vegar og sjálfstætt starfandi einstaklinga hins vegar skuli haldið aðgreindum í reikningum sjóðsins.
    Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á 8. gr. frumvarpsins þannig að umsækjandi haldi bótarétti sínum þótt hann komist ekki til skráningarstaðar sökum veikinda, enda séu veikindin sönnuð með læknisvottorði.
    Í fjórða lagi leggur minni hluti nefndarinnar til að biðtími eftir atvinnuleysisbótum falli niður. Þetta er mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að atvinnuleysi er orðið viðvarandi hér á landi.
    Í fimmta lagi er gerð breyting á 2. mgr. 23. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, með síðari breytingum, þannig að bótaþegum, sem hafa börn sín yngri en 18 ára á framfæri á heimili sínu eða greiða sannanlega með þeim meðlag utan heimilis, skuli að auki greidd 8% í stað 4% af hámarksdagpeningum atvinnuleysistrygginga. Með þessari breytingu fá atvinnulausir um 170 kr. á dag með hverju barni á framfæri í stað aðeins 85 kr. eins og nú er.
    Í sjötta lagi er lagt til að 11. gr. frumvarpsins falli brott þannig að bætur elli- og örorkulífeyrisþega dragist ekki frá greiðslum almannatrygginga. Við þetta ákvæði frumvarpsins hefur komið fram mikil gagnrýni frá flestum þeim er fengu málið til umsagnar, sérstaklega þó Landssambandi aldraðra, Öryrkjabandalaginu og Sjálfsbjörgu, landssambandi fatlaðra. Staðreyndin er sú að þegar þrengist um á vinnumarkaðnum og til uppsagna kemur hjá fyrirtækjum eða stofnunum er hinum fötluðu og ellilífeyrisþegum fyrst sagt upp störfum og þeir eiga jafnframt erfitt með að fá störf aftur. Gangi þessi skerðing eftir eins og frumvarpið gerir ráð fyrir munu þeir líklega flýta töku lífeyris úr lífeyrissjóðum. Að flýta töku lífeyris um einn mánuð þýðir 1 / 2 % skerðingu á lífeyri. Einstaklingur, sem flýtir töku lífeyris um þrjú ár, þ.e. tekur lífeyri 67 ára í stað 70 ára, verður fyrir 18% skerðingu. Þá má geta þess að ellilífeyrisþegar hafa farið út af vinnumarkaðnum til þess að rýma fyrir yngra fólki sem hefur verið atvinnulaust. Þetta hafa ellilífeyrisþegar gert í trausti þess að atvinnuleysisbæturnar kæmu í staðinn fyrir þær vinnutekjur sem þeir hefðu á vinnumarkaði þar til greiðslur úr lífeyrissjóðum færu að berast. Þessi breyting mun hafa í för með sér verulega skerðingu eða um allt að 10.000 kr. á mánuði.
    Í sjöunda lagi leggur minni hlutinn til að 2. mgr. 25. gr. laganna verði breytt þannig að ráðherra skuli setja reglugerð um skipan úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta til þeirra sem ekki eru í stéttarfélagi, eru sjálfstætt starfandi og þeirra sem lokið hafa eða hætt námi.
    Í áttunda lagi er lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða um endurskoðun laganna. Skal henni lokið fyrir árslok 1985.
    Minni hlutinn telur nauðsynlegt að þegar lögin um atvinnuleysistryggingar verða tekin til heildarendurskoðunar eins og ákvæði til bráðabirgða gerir ráð fyrir verði staða bænda sem misst hafa stóran hluta fullvirðisréttar skoðuð sérstaklega.

Alþingi, 6. maí 1993.



Finnur Ingólfsson,

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Ingibjörg Pálmadóttir.


frsm.



Margrét Frímannsdóttir.