Ferill 89. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 89 . mál.


1272. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Sigríði Ingvarsdóttur og Helga I. Jónsson frá Dómarafélagi Íslands og Hallvarð Einvarðsson ríkissaksóknara. Umsagnir bárust frá BHMR, Blaðamannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, dómsmálaráðuneyti, Lögmannafélagi Íslands, Rithöfundasambandi Íslands og ríkissaksóknara.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að 108. gr. almennra hegningarlaga verði felld brott en efni hennar er að refsivert sé að hafa í frammi móðganir eða ærumeiðandi aðdróttanir við eða um opinberan starfsmann þegar hann gegnir skyldustarfi sínu.
    Skýrt hefur verið frá því að í framhaldi af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu 25. júní 1992, í máli Þorgeirs Þorgeirssonar gegn Íslandi, skipaði dómsmálaráðherra nefnd sem falið var að gera tillögur um viðbrögð við dóminum. Var nefndinni sérstaklega falið að kanna hvort þörf sé á slíkri vernd opinberra starfsmanna sem 108. gr. almennra hegningarlaga gerir ráð fyrir. Jafnframt var nefndinni falið að kanna hvort ekki sé tímabært að lögtaka mannréttindasáttmála Evrópu. Er nefndin að vinna að málinu.
    Skiptar skoðanir hafa komið fram um hvort fella eigi brott ákvæði 108. gr. Kom m.a. fram í umsögn Lögmannafélags Íslands að slíkt væri óþarft. Úrskurður Mannréttindadómstólsins fæli í sér að skýra bæri ákvæðið rýmri skilningi en ekki þyrfti að fella það brott. Enn fremur kom fram í umsögn Dómarafélagsins að eðlilegt væri að opinberir starfsmenn þyrftu ekki að standa sjálfir í málarekstri vegna ómaklegra árása út af skyldustörfum sínum og væri einnig um að ræða opinbera hagsmuni af því að þau embætti og stofnanir, sem starfsmennirnir koma fyrir, nytu verndar. Varhugavert væri að fella 108. gr. úr gildi án þess að annað ákvæði kæmi í staðinn sem tryggði þessa mikilvægu hagsmuni með sambærilegum hætti.
    Þess ber að geta að annar flutningsmanna frumvarpsins, Kristinn H. Gunnarsson, kom með breytingartillögu við málið í nefndinni þar sem lagt var til að 108. gr. orðaðist svo: Hver sem hefur í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum.
    Undirrituðum nefndarmönnum þykir full þörf á því að ákvæði 108. gr. verði könnuð og þar sem fram hefur komið að nefnd sú, sem dómsmálaráðherra skipaði, mun væntanlega gera tillögur í málinu nk. haust er lagt til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 7. maí 1993.Sólveig Pétursdóttir,

Sigbjörn Gunnarsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.Ey. Kon. Jónsson.