Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 19:11:23 (3416)


[19:11]
     Gunnlaugur Stefánsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég tel það afar eðlilegt að núna sé gefið matarhlé til þess að menn geti nærst og haldið svo umræðum áfram um það mikilvæga mál sem er á dagskrá í kvöld. Ef ákvörðun hæstv. forseta um matarhlé tengist á einhvern hátt þeim umræðum sem hafa átt sér stað núna vegna þess hvernig staðið hafi verið að útgáfu bráðabirgðalaganna þá vil ég að það komi alveg skýrt fram að hæstv. ráðherrar Alþfl. höfðu samband við alla aðra þingmenn flokksins og lögðu málið fyrir þá. Einnig má geta þess hér að það var haft alveg ágætt samráð við fulltrúa flokksins í hv. sjútvn., mig sjálfan, um undirbúning málsins. Ég spurði sérstaklega eftir því hvort ekki yrði örugglega haft samband við aðra þingmenn flokksins áður en bráðabirgðalögin yrðu gefin út. Mér var tjáð að svo mundi verða gert. Svo best sem ég veit var þetta samband mjög eðlilegt og að því staðið með þeim hætti eins og jafnan er gert í Alþfl. við útgáfu bráðabirgðalaga. Þetta vildi ég að lægi ljóst fyrir.