Umræða um skýrslu Byggðastofnunar

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:05:20 (3569)

[15:05]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Eins og forseta og þingmönnum er sjálfsagt kunnugt var á dagskrá þingsins í nóvembermánuði á sl. hausti gert ráð fyrir umræðu um skýrslu Byggðastofnunar eða umræðu um byggðamál en ekki varð af vegna veikinda hæstv. forsrh. ef ég man rétt. Nú hefur þessi umræða ekki verið sett á dagskrá á starfsáætlun þingsins svo mér sé kunnugt. Mér þykir það bagalegt og hef áður gengið eftir því í desembermánuði sl. Ég minni á að umræða um þessi mál fór heldur ekki fram á þinginu á undan þessu. Það eru því komin rúmlega tvö ár síðan rætt hefur verið um þessi mál.
    Ég vil því spyrja hæstv. forseta tveggja spurninga. Sú fyrri er hvort það verði rætt á þessu þingi um skýrslu Byggðastofnunar fyrir árin 1991 og 1992.
    Í öðru lagi: Hvenær myndi sú umræða fara fram ef hún á að verða?