Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:03:01 (3770)


[15:03]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. landbrh. kemst ekkert áleiðis með því að hverfa á vit fortíðarinnar í þessu máli. Ég held að okkur væri nær að horfast í augu við að verkefni sem við stöndum hér frammi fyrir og ég tók það reyndar skýrt fram í minni ræðu að ég hefði verið sömu skoðunar og hann, að þetta forræði væri fyrir hendi og væri helt. En svo kom annað á daginn.
    Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er sá, hæstv. forseti, að lögin um innflutning eru afdráttarlaus. Þau taka sérstaklega fram að það þurfi sérstaklega í öðrum lögum að færa valdsviðið undan viðskrn., annars sé það þar. Það þarf að vera beinhart ákvæði í lögum. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að lesa úr því þannig og það er auðvitað það sem hæstv. viðskrh. er í reynd að segja í blaðaviðtalinu í Morgunblaðinu í morgun. Þannig að því miður standa málin ekki svona, hæstv. landbrh. Ef þau gera það hins vegar, ef hæstv. utanrrh. er tilbúinn til að koma hér í ræðustólinn og staðfesta þann skilning landbrh. að almennt og ótakmarkað forræði á innflutningi og útflutningi búvöru, þ.e. stjórnsýslulegt forræði málaflokksins, heyri undir landbrn., þá fagna ég því í fyrsta lagi og legg svo hönd á plóginn við að ganga frá því í lagatextanum í öðru lagi. Því þá er ekkert vandamál, þá er engin deila, þá er hún úr sögunni. En meðan hvorugt gerist, að lögin séu skýr eða hæstv. viðskrh. játist undir þennan skilning, þá er enn maðkur í mysunni.