Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 16:26:25 (3896)


[16:26]

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Mér þykir hlýða við upphaf máls míns að nefna það að hér í þingsal er hvorki frsm. annars hluta allshn. sem ber þetta mál fram né heldur sá ráðherra sem málið heyrir undir og ég tel það algert lágmark að þessir fulltrúar ríkisstjórnarmeirihlutans sitji undir umræðum og óska þess að þessu sé komið á fram færi. ( Gripið fram í: Þeim er nú hjartanlega sama um hvað við segjum.) Það skiptir nú engu máli, hv. þm.
    ( Forseti (SalÞ): Þannig háttar til að hæstv. dómsmrh. þurfti að bregða sér frá, til fundar í ráðuneyti hans, þar sem beðið var eftir honum. Hann gerir ráð fyrir því að verða kominn hingað aftur kl. fimm. En forseti tók ekki eftir hvaða aðra hv. þm. ræðumaður var að biðja um.)
    Ég nefndi hv. talsmann annars hluta allshn.
    ( Forseti (SalÞ): Hv. 6. þm. Reykv. er í húsinu og forseti skal gera henni viðvart.)
    En ég tel ekki fært að ræða þetta mál hér að dómsmrh. fjarstöddum, ekki af minni hálfu þar sem málið heyrir undir hann.
    ( Forseti (SalÞ): Hv. þm. telur sig ekki geta hafið sína ræðu. ( HG: Alls ekki.) Þá er hér á mælendaskrá hv. 5. þm. Vestf. Það mætti þá athuga hvort hann væri tilbúinn að nota tímann og taka til máls og mun forseti athuga það. En að öðru leyti er auðvelt að gera hv. 6. þm. Reykv. viðvart.)
    Virðulegi forseti. Ég tel það vera á valdi hæstv. dómsmrh. hvort hann er við umræðu um málið eða ekki, þ.e. hann verður að gera upp við sig hvort hann vill að þetta mál sé rætt í þinginu, umræða geti haldið áfram eður ei. En meti hann störf uppi í ráðuneyti meira en það að vera viðstaddur umræðuna þá er það hans mál, en ég tel ekki viðeigandi að í máli sem þessu sé sá ráðherra fjarstaddur og raunar enginn einasti ráðherra viðstaddur þegar umræða svo alvarlegt mál sem þetta fer hér fram.
    ( Forseti (SalÞ): Forseti var búin að gefa þá skýringu að hæstv. dómsmrh. þurfti að bregða sér aðeins frá í hálftíma eða svo, sagðist mundu reyna að fylgjast með því sem hér gerðist í ráðuneytinu en gat ekki komist hjá því að skjótast þangað stutta stund og mun koma aftur um fimmleytið. En ef hv. þm. óskar eftir því að fresta ræðu sinni þá mun forseti reyna að leita eftir því að aðrir hv. þingmenn sem eru á mælendaskrá nýti tímann og flytji sitt mál. Hér er kominn hv. 6. þm. Reykv. í salinn og er þá væntanlega tilbúin til að fylgjast með og hlusta á umræður.)
    Virðulegur forseti. Ég vek athygli hæstv. forseta á því að þessi umræða um stjfrv. fer hér fram án þess að nokkur einasti ráðherra sé viðstaddur í þingsal.