Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

86. fundur
Miðvikudaginn 09. febrúar 1994, kl. 14:09:03 (3938)


[14:09]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er aðeins ein spurning til hæstv. landbrh. Það vekur athygli mína að í 1. gr. er talað um að þessi skipan skuli standa óbreytt, þ.e. umdæmi fjallskiladeilda skuli haldast óbreytt nema um annað sé samið. Í skýringu við frumvarpið kemur hins vegar fram í síðustu málsgrein að þetta skuli standa svo að frumvarpið miði að því að raska ekki núverandi fyrirkomulagi fjallskiladeilda og upprekstrar á einstaka afrétti nema sveitarfélög semji um annað og þá vaknar upp sú spurning: Er þetta sem sagt hin rétta lögskýring, að valdið til að breyta fjallskiladeildunum færist þá til sveitarfélaganna og þá þess vegna hinna nýju og stækkuðu sveitarfélaga en verði ekki á hendi íbúa þess svæðis sem viðkomandi fjallskiladeild tekur til? Það mætti skilja lagagreinina sjálfa, 1. gr., þannig og það hlýtur þá auðvitað að vakna upp sú spurning hvort það sé ekki að mörgu leyti miklu eðlilegri túlkun. Ef svo er þá þarf það að koma alveg skýrt fram að það skuli ekki miða við þessa lögskýringu í greinargerðinni. Þetta er eina atriðið sem mér virðist vera þarna ofurlítið óljóst.
    Að öðru leyti vil ég taka fram að ég tel efni frv. skynsamlegt og ég tel að þetta hefði betur legið fyrir þegar sameiningarfárið gekk yfir hér í haust því að akkúrat atriði af þessu tagi voru meðal þess sem olli þeirri óvissu sem strandaði jafnvel skynsamlegum sameiningaráformum í vissum tilvikum. Ég tel frv. í sjálfu sér alveg fullnægjandi til að eyða þeirri óvissu og ég held að það gangi í rétta átt. Það er skynsamlegt að fjallskiladeildirnar geti starfað áfram sem sjálfstæðar einingar og gefur auðvitað auga leið til að mynda að ef samþykkt hefði verið sameiningin hér á höfuðborgarsvæðinu þá hefði það verið næsta hjákátlegt ef borgarstjórn Stór-Reykjavíkur hefði átt að fara að stjórna upprekstri og fjallskilum í Kjósinni, svo dæmi sé tekið. Það er auðvitað miklu gáfulegra að fjallskiladeildin þar geti starfað áfram og sinnt sínu hlutverki sem er öðrum tiltölulega óviðkomandi, þ.e. að stjórna upprekstri og fjallskilum á einhverri afmarkaðri afrétt. Ef hæstv. landbrh. gæti skýrt þetta eða þá eftir atvikum að hv. landbn. mundi athuga þetta atriði.