Unglingaheimilið í Stóru-Gröf

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:23:11 (4073)


[17:23]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Mér fannst það vera kjarnaatriði sem fram kom í máli hæstv. ráðherra þegar hún lýsti því yfir að þarna hefði náðst mjög góður árangur. Það hlýtur að vera lykilatriði í þessu samhengi. Þegar það er svo skoðað í tengslum við hitt að búið er að fjárfesta á staðnum í mannahaldi, í ráðningu starfsfólks og þjálfun þess, þá finnst manni ákaflega öfugsnúið ef svo færi að ekki yrði hægt að halda áfram á þessu svæði starfsemi sem væri af hliðstæðri gerð. Það má vel vera rétt að ekki sé þörf á nákvæmlega sams konar starfsemi í svipinn, þ.e. lokaðri deild, og það væri þá frekar um að ræða almenna deild. Ég geri ráð fyrir að það hafi falist í orðum ráðherrans þegar hún nefndi að það kæmi til álita að þarna yrði um að ræða meðferðarstarf í breyttri mynd, en ég held að aðalatriði sé að þessu starfi á að halda áfram. Þörfin er vafalaust fyrir hendi og ég hvet ráðherrann mjög eindregið til þess að stuðla að því að þetta starf falli ekki niður.
    Ég vildi mega spyrja hann að endingu hvort nokkuð liggi fyrir um það hvenær ákvörðun verði tekin um framhald málsins. Hún nefndi hugsanlegt meðferðarstarf í breyttri mynd og það væri æskilegt ef hún útskýrði ögn betur hvenær ákvarðanir yrðu hugsanlega teknar um slíkt.