Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 16:25:14 (4123)



[16:25]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt að svara hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni. Þegar við töluðum um bráðabirgðalögin, hv. þm., þá kom afstaða mín skýrt í ljós og allra þingmanna Framsfl. Framsfl. talaði gegn því og vildi sníða af þá annmarka á kerfinu sem gera það mögulegt að sjómenn eru látnir taka þátt í kaupum á veiðiheimildum. Við erum á móti slíku og við eigum auðvitað að hafa vit á því að sníða annmarka af þessu kerfi en það þarf ekki að kollvarpa kerfinu til þess. Ég spurði einmitt hæstv. sjútvrh. að því hvort hann vildi flytja frv. í þessa veru sem hv. þm. nefndi og ráðherrann lýsti því yfir að hann væri tilbúinn að gera það ef það mundi leysa málið.
    Ég hef vissulega velt því fyrir mér hvort ég ætti að gera slíkt. Ég gerði það ekki, enda hefði það sjálfsagt ekki breytt miklu eins og málið var komið þá. En ég tel að í vinnu hv. sjútvn. eigi menn tvímælalaust að sníða af þessa annmarka og ég vonast eftir stuðningi Alþfl. við því máli, þó ég efist um það vegna þess að þeir hefðu auðvitað með stjórnaraðstöðu átt að gera það fyrr.