Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 23:02:43 (4185)


[23:02]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst nokkuð kynlegt að jafnþingreyndur maður og hv. 2. þm. Vestf. skuli ekki átta sig á því að hér fer fram 1. umr. um þetta frv. Það getur varla talist óeðlilegt að þingmenn sem ræða svo flókið og viðamikið mál sem hér er verið að ræða um í dag og í kvöld komi fram með athugasemdir við frv. sem er að sjálfsögðu litið á sem veganesti til hv. sjútvn. þegar hún fer að fjalla um þetta mál. Ég geri ráð fyrir því að það verði reynt að breyta frv. til betri vegar og að sjálfsögðu eru mínar athugasemdir settar fram, ekki til þess að skapa neina þoku eins og hv. þm. virðist halda, heldur eru þær athugasemdir framlag mitt til umræðunnar um þessi mál í sjútvn. Ég vil hins vegar benda hv. þm. Norðurl. v. að hann getur ekki veitt neitt andsvar við svari mínu við andsvari.