Húsrými Þjóðarbókhlöðu

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 13:35:59 (4215)


[13:35]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt að það er stefnt að því að vígja Þjóðarbókhlöðu síðar á þessu ári. Við stefnum að því 1. des. og í því sambandi vil ég geta þess að núna er að ljúka undirbúningi að gerð frv. um hið nýja þjóðbókasafn og verður væntanlega lagt fyrir þingið á allra næstu dögum. En það er alveg nýtt fyrir mér að Þjóðarbókhlaðan sé orðin of lítil. Það hef ég ekki heyrt og hef þó fylgst allvel með gangi mála þar á undanförnum missirum. Hins vegar er ljóst að það er eðli svona safna að þau stækka. Þetta safn var upphaflega hannað fyrir 20 árum og við allt aðrar aðstæður heldur en gilda í dag. Ég nefni aðeins eitt atriði sem hefur tekið alveg grundvallarbreytingum frá því að safnið var hannað. Það er tölvuvæðing safnsins. En sem betur fer þá held ég að það hafi verið þannig hannað í upphafi að það hefur verið tiltölulega auðvelt að breyta upphaflegri hönnun til þess sem betur hentar með breyttri og bættri tækni. En að það sé þegar orðið of lítið hef ég ekki heyrt og hef þess vegna ekki búið mig undir nein sérstök viðbrögð við þeim möguleikum.