Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 13:03:20 (4294)


[13:03]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hefur að vísu nokkuð verið gripið til aðgerða til að milda þyngstu höggin í tvígang með að dreifa út aflaheimildum Hagræðingarsjóðs þannig að meðaltalsskellur yrði ekki meiri en tilteknu prósenti nam. Þess utan hefur genginu verið breytt. Það hefur fallið í tvígang þannig að raungengið er nú hagstæðara sjávarútvegi heldur en það hefur nokkru sinni áður verið, a.m.k. í áratugi. Vextir hafa lækkað, aðstöðugjöld hafa verið felld niður og fleiri slíkar aðgerðir hafa gengið fram. Þess vegna er afkoma sjávarútvegsins sem heildar ekki lakari þó en hún er þrátt fyrir hinn mikla niðurskurð. Tölur sem við óttuðumst að yrðu á þessu ári og spáð var í júnímánuði sl. 8, 10, 12% halli á sjávarútvegi eru sem betur fer allt aðrar. Það breytir ekki hinu að á ýmsum stöðum á landinu eru einstök fyrirtæki í mjög miklum erfiðleikum því meðaltalið segir ekki alla söguna, hvorki nú fremur en endranær.