Markaðsátak í rafmagnssölu

94. fundur
Mánudaginn 21. febrúar 1994, kl. 15:41:57 (4354)


[15:41]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir afar skýr svör við spurningum mínum. Þessi svör hafa leitt það fyrst og fremst í ljós að í raun og veru hefur verið vannýttur markaður fyrir sölu á orku á býsna mörgum sviðum. Ég held að þessi svör sýni okkur það líka að kannski hafa orkusölufyrirtækin að nokkru leyti sofið á verðinum gagnvart því að fara í einhvers konar markaðsstarfsemi vegna þess að orkusalan hefur verið býsna tryggur stofn lengst af en núna standa menn frammi fyrir því, m.a. vegna erfiðleika í stóriðjurekstri hér á landi, að fyrirtækin hafa orðið að leggja í, sem eðlilegt er, einhvers konar markaðsstarfsemi með þeim árangri sem hæstv. iðnrh. gat um áðan.
    Ég er sannfærður um og það kemur líka fram í þeim framtíðaráætlunum sem orkusölufyrirtækin og Landsvirkjun hafa í þessum efnum að það eru enn þá vannýttir möguleikar á því að auka orkusöluna í landinu. Hæstv. ráðherra nefndi fiskimjölsiðnaðinn eins og raunar kom fram í mínu máli og rækjuiðnaðinn sem er vaxandi atvinnugrein í okkar landi og kallar á aukna orkunotkun. Það er líka mjög athyglisvert, sem fram kom í máli hæstv. ráðherra, að 2--3% húsa eru enn þá kynt með olíu. Þarna hlýtur að vera fyrir hendi umtalsverður markaður sem sjálfsagt er að sinna með öllum tiltækum ráðum.
    Ég er sannfærður um að í ljósi þess að við höfum vannýtta fjárfestingu í orkukerfinu þá sé sjálfsagt mál að reyna að auka innlenda orkunotkun sem gæti kannski orðið til þess að skapa ný atvinnutækifæri. Ég nefni t.d. ýmsa möguleika sem e.t.v. geta verið í íslenskum iðnaði sem gæti síðan leitt til aukinnar atvinnusköpunar.