Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 16:00:52 (4380)


[16:00]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. heldur uppi þeim strákslega hætti oft hér í þingstörfum að í stað þess að svara spurningum, sem til hans er beint, þá kemur hann gjarnan í lok umræðu og snýr út úr orðum manna. T.d. sneri hann nánast þannig út úr orðum mínum að ég hefði í raun lagst gegn allri hagræðingu og ég vildi láta sækja fisk í sjóinn með meiri tilkostnaði en þyrfti. Hvernig dettur nokkrum heilvita manni í hug að halda svona vitleysu fram, hæstv. sjútvrh.? Slík orð voru aldrei sögð í þessari umræðu. Þetta er bara skáldskapur í eigin hugarheimi hæstv. ráðherra.
    Ég bakka hins vegar ekki með það að þegar þær aðstæður skapast að tímabundið verður að draga úr sókn í einhverjar tegundir þá eru vissir möguleikar til að mæta því með því að gera enn meira verðmæti úr því sem má þó taka og þar getur stærri skipastóll m.a. nýst manni. Þetta eru engin ný vísindi. Það er margbúið að tala um þetta. Hefur hæstv. sjútvrh. aldrei heyrt talað um nauðsyn á bættri meðferð afla á Íslandi? Líklega ekki. Það er það sem hér var verið að benda á sem einn þátt af mjög mörgum sem þyrfti að taka inn í myndina þegar verið væri að velta flotastærðinni fyrir sér og ég held að hæstv. sjútvrh. hefði verið nær að svara slíkum spurningum eins og ég beindi t.d. til hans, hvort hann telji ástæðu til þess að hafa í gangi úreldingu á loðnuskipum eins og stærð þess flota er og í ljósi þeirrar staðreyndar að við höfum ekki náð þeim kvóta ár eftir ár. Er hæstv. sjútvrh. að mæla með því fyrirkomulagi að það sé hægt að úrelda loðnuskip og kaupa inn í landið í staðinn t.d. togara? Telur hann það æskilega breytingu? Ég var ekki að biðja um einhverja sérstaka miðstýringu í þeim efnum og kemur náttúrlega úr hörðustu átt að heyra hæstv. ráðherra Sjálfstfl. sem er hér að leggja fram frv. um einhvern mesta millifærslusjóð sögunnar, miðstýringar- og millifærslusjóð, fara að gagnrýna aðra fyrir hugsun af því tagi. Og ég veit ekki hvaðan Sjálfstfl. kemur sú speki í raun og veru að útgerðarmenn á Íslandi munu halda áfram að gera of stóran flota út alveg út yfir gröf og dauða ef Sjálfstfl. hefur ekki vit fyrir þeim að hætta því.