Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 16:05:02 (4382)


[16:05]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við skulum lesa yfir þessi orðaskipti, hæstv. sjútvrh., og þá kemur fram hvernig hæstv. ráðherra var hér að reyna að snúa út úr orðum mínum. Staðreyndin er náttúrlega sú að hér er verið að taka mjög miðstýrða ákvörðun. Það er verið að ákveða að taka 4 þúsund millj. að láni, beina ráðstöfðun þeirra inn í tiltekinn farveg og láta síðan sjávarúteginn endurgreiða það með sérstökum skatti sem á að leggja á hann frá og með árinu 1996 án þess að sjávarútvegurinn sem slíkur eigi að ráðstafa því eða stýra hvernig með þessa peninga er farið. Hefur hæstv. sjútvrh. spurt greinina að því: Ef ég get útvegað ykkur 4 þús. millj. að láni, í hvað viljið þið fá það? Í hvað ætlið þið að nota? Ég er ekki viss um að hæstv. sjútvrh. fengi það svar að það ætti að gera það einmitt svona og það er einmitt miðstýrð ákvörðun. Þarna er verið að reyna að taka af mönnum völdin og hafa vit fyrir þeim. Það er auðvitað þannig. Og ég endurtek það bara, ég veit ekki síðan hvenær mönnum kom sú speki í hug á Íslandi að útgerðarmenn og fyrirtækin í landinu, sem hæstv. sjútvrh. talar svo um í hinu orðinu, séu þá ekki bara einfær um að taka sjálf þær ákvarðanir sem lúta t.d. að stærð fiskiskipanna sem þau gera út. Hvers vegna ekki? Og af hverju þarf þá endilega að hafa vit fyrir þeim gagnvart þessum þætti en öðrum? Ég held að það þurfi bara að fara yfir þetta mál í heild sinni. Úrelding í einu hólfi eins og hér er verið að leggja til er mjög umdeilanleg aðgerð. Ég held að hæstv. sjútvrh. hljóti að verða að viðurkenna það. Þetta er náttúrlega samdráttaraðgerð í greininni. Það þýðir ekkert annað en horfast í augu við það. Upp að vissu marki er einhver samdráttur þegar orðinn og óhjákvæmilegur. En við hljótum að reyna að beina þessu fjármagni a.m.k. jafnframt í það að auka tekjurnar og auka verðmætasköpunina. Ég tel að það sé ekki nógu framsækin hugsun, þetta sé úrelt og gamaldags hugsun sem liggur í þessu frv., sama heimóttarhugsunin og hefur lokað menn af innan landhelginnar og skaut upp kollinum hjá hæstv. ráðherra í sumar þegar hann vildi banna mönnum að fara í Smuguna. Sama ræfildómshugsunin.