Norræna ráðherranefndin 1993--1994

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 14:17:06 (4443)


[14:17]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það kom mér vissulega ekkert á óvart að heyra tóninn í hv. þm. Birni Bjarnasyni varðandi mitt mál hér. Auðvitað hafði þingmaðurinn ekkert efnislegt til mála að leggja heldur aðeins það að koma hér með glósur. Það er háttur þessa hv. þm. að hann tekur þannig á málum þegar hann stendur upp án þess að hafa nokkuð efnislegt til málanna að leggja. Þetta þykir mér alveg hörmulegt.
    En það kann fleira að liggja undir þeim steini í rauninni að ganga fram með þeim hætti sem þingmaðurinn kaus að gera í byrjun síns máls. Hann orðaði það síðar í ræðu sinni þegar hann var að tala um Evrópusamstarfið, Evrópusambandið, að það væri a.m.k. ekki ákveðið að sækja um aðild að því. Hann bætti því við um leið og hann tók fram að við hefðum ekki gert það. Og það er akkúrat þetta sem hv. þm. hafði í huga og bindur tungu hans nokkuð vegna þess að þessi þingmaður er einn í þeim hópi sem aldrei getur talað skýrt í því máli. Hann hefur vissulega kastað því fram í rituðu máli á undanförnum missirum að það komi að hans dómi sterklega til greina að sækja þarna um aðild og hann hefur í síðustu greinum sem ég hef lesið eftir hann slegið fullan varnagla við því að þetta komi ekki til greina, það beri vissulega að halda þessu opnu. Auðvitað getur þingmaðurinn ekki tekið undir sterkar áhyggjur ef hann ætlar að fara að mæla með því, hugsanlega innan ekki langs tíma, að það sé rétta leiðin að stíga skrefið til fulls.