Fríverslunarsamtök Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 16:09:05 (4464)


[16:09]
     Vilhjálmur Egilsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er svolítið erfitt að skýra frá þessu í mjög stuttu máli en aðalatriðið er kannski það að EFTA hefur á undanförnum árum þjónað sem tæki EFTA-ríkjanna til þess að tala og hafa samskipti við Evrópubandalagið. Í gegnum EFTA hefur komið mikið upplýsingaflæði og í gegnum EFTA hafa þjóðirnar sameiginlega getað fengið betri aðgang að stofnunum Evrópubandalagsins en þær mundu geta haft hver um sig og samningaviðræður við bandalagið hafa allar orðið miklu einfaldari en þær mundu annars hafa verið.
    Mér þykir einsýnt og ég hygg að það sé viðhorf sem fleiri geta tekið undir að ef Mið- og Austur-Evrópuþjóðirnar ganga ekki inn í EFTA, þá munu þær þurfa sjálfar að stofna einhvers konar samtök sín á milli sem þjóna því hlutverki að vera vettvangur fyrir upplýsingaflæði, samskipti og samninga við Evrópubandalagið.
    Þeir samningar sem þessar þjóðir hafa hver um sig gert við Evrópubandalagið og EFTA, þ.e. Evrópusamningarnir eða fríverslunarsamningarnir við EFTA, eru í sjálfu sér ekki efnislega séð mjög frábrugðnir EFTA-samningnum gamla. Þess vegna má segja sem svo að það sé ekki mikill eðlismunur á því hvort þær eru í EFTA eða hvort þær komi á einhverri slíkri stofnun. Það sem ég mundi fyrst og fremst vara við í þessu sambandi er það viðhorf sem maður heyrir stundum að við eigum að samþykkja eða hafna aðild þessara þjóða að EFTA á þeim grundvelli hvort við séum að gera þeim einhvern sérstakan greiða eða ekki. Það viðhorf hefur stundum komið fram.