Olíuúrgangur

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:06:52 (4538)


[17:06]
     Gísli S. Einarsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn varðandi olíusorann. Mér hefur verið sagt að það sé hægt að safna saman 4.000--6.000 tonnum á ársgrundvelli. En ég vil vekja athygli á öðru. Til landsins er flutt malbik í tugum þúsunda tonna á hverju ári og ég held að menn hafi ekki gert neina athugun á því hversu mikið magn eyðist af olíuefni og malbiki sem er nákvæmlega sama efni og við erum að fjalla um, úrgangsolía, og ég spyr hæstv. umhvrh.: Eru fyrirhugaðar einhverjar framkvæmdir varðandi það að gera athugun á rykmagni í lofti í Reykjavík af þessum völdum?