Forvarnastarf á sviði áfengis og fíkniefna

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:37:59 (4550)


[17:37]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni í þá veru sem hann talaði hér og ég vil árétta það að í desember sl. fór allnokkur umræða fram einmitt um áfengismálin og fjármál þeim tengd. Þá hygg ég hins vegar að skýrt hafi komið fram að hv. þm., m.a. fyrirspyrjandi, lögðu mjög ríka áherslu á það að í engu yrði breytt þeim rekstri sem hefur einungis með meðferð að gera.
    Nú er það þannig að þau ágætu samtök sem ég á hér við, samtök áhugafólks um áfengisvandamálið, SÁÁ, hafa farið eftir hinni svokölluðu bandarísku línu sem margir Íslendingar kannast við frá Freeport og öðrum sambærilegum heimilum þar. Á hinn bóginn hafa margir bent á það til að mynda í þeim efnum að nú hafi Bandaríkjamenn snúið sér í auknum mæli frá þeirri kenningu að meðferðin skuli fara fram í tiltölulega einangruðu samfélagi, lokuðu frá umhverfinu í kring heldur þvert á móti sé í auknum mæli nú farið út á brautir dagdeilda. Með öðrum orðum, viðkomandi sjúklingur er yfir daginn í þessu virka meðferðarprógrammi en er síðan í sínu eðlilega umhverfi á kvöldin og á næturnar. Hann er með öðrum orðum að eiga við þetta vandamál sitt í sínu eðlilega og venjubundna umhverfi.
    Þetta vil ég nefna til þess eins að undirstrika að það er kannski auðveldara um að tala en í að komast til þess að gera í raun það endurmat sem sífellt á að fara fram í áfengismálastefnu okkar og þá einnig hitt að færa fé frá virku meðferðarstarfi til forvarna með það að markmiði að ná sem bestum árangri á hverjum tíma.