Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 19:15:53 (4623)


[19:15]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. eru nú nokkuð gleymnir á 1. umr. þessa máls. Þá komu fram fjölmargar fyrirspurnir, m.a. um það við hvaða þingmenn hefði verið talað. Og þó svo að þær spurningar hafi verið algerlega út í hött og ómálefnalegar og ekki á nokkurn hátt í tengslum við efni málsins né heldur þær stjórnskipunarreglur sem gilda um útgáfu laganna þá svaraði ég spurningum af þessu tagi eftir bestu vitund til þess að svala fróðleiksfýsn þeirra sem spurðu, jafnvel þó spurningarnar væru alveg út í hött. Þannig að þó hv. 2. þm. Vestf. í vörn sinni hér, vegna þess að þeir verða að viðurkenna að það eru engin haldbær rök fyrir þeirra árásum, fari að reyna að snúa málinu upp á þann veg sem hann gerði þá fellur hann líka á því prófinu vegna þess að það var einungis verið að svara fyrirspurnum frá stjórnarandstöðunni. En ég skal fúslega viðurkenna það að þær voru tilefnislausar og voru algjörlega úr sambandi við efni og form málsins og hefði þess vegna ekki þurft að svara þeim. En það var gert hér vegna þess að almennt er það nú svo að við reynum að upplýsa um þau mál sem verið er að spyrja um, jafnvel þó þau séu svona til hliðar eins og í þessu tilviki.