Notkun steinsteypu til slitlagsgerðar

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 18:57:27 (4866)


[18:57]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir tvær síðustu ræður sem hér hafa verið fluttar. Hér er um mjög þarft mál að ræða, tillaga um að auka notkun steinsteypu til slitlagsgerðar. Kostir steinsteypu eru ótvíræðir eins og hér hefur komið fram. Það er í fyrsta lagi betri ending gatna, það er minni mengun og fleiri störf á Íslandi. Þetta vil ég taka undir og minna á að um þessar mundir eru margir sveitarstjórnarmenn að taka

ákvarðanir um það að leggja í varanlega gatnagerð og það er gott að minna þessa sveitarstjórnarmenn á það að nota steypu og horfa til þess sem hefur verið gert annars staðar í bæjarfélögum, t.d. á Akranesi þar sem steypa hefur verið notuð til gatnagerðar í meira en 30 ár með sérstaklega góðri reynslu.
    Þar hefur lítið viðhald átt sér stað á götum sem eru 32 ára gamlar. Steinsteypa er dýrari í upphafi en hún er margfalt endingarbetri þannig að það þarf ekki einungis að vekja samgrh. til vitundar um að nota meiri steinsteypu heldur líka sveitarstjórnarmenn. Mér finnst rétt að það komi hér fram.
    Ég talaði um minni mengun og hér hefur verið rætt um að olía rýkur upp við malbikun en ekkert slíkt á sér ekki stað þegar steypt er. Það þarf að leggja götur á mörgum útivistarstöðum og útivistarsvæðum. Ég minni t.d. á að í Heiðmörk er nauðsynlegt að leggja göngustíga, en þar er útilokað að nota malbik vegna þess að malbikið mundi menga vatnasvæðin þar í kring, en þar er aftur á móti upplagt að nota steinsteypu. Mér finnst rétt að minna á það hér. En það er merkilegt með okkur Íslendinga að við gleymum oft að nýta það sem okkur er næst. Hér hafa menn talað um að velja íslenskt og það verður fylgst með því núna þessar vikur hvernig verður farið með útboð í Þjóðarbókhlöðuna. Þar á að bjóða út framkvæmd fyrir 250 millj. Þar er verið að innrétta Þjóðarbókhlöðuna eins og margsinnis hefur verið auglýst en það verður áhugavert að fylgjast með því hvort það verða innlendir aðilar sem þar verða valdir til. Þar er um mikla upphæð að ræða og mér finnst rétt að það sé rætt í þessu samhengi þegar verið er að tala um að nýta það sem íslenskt er vegna þess að hér eru menn líka að tala í sömu andrá um skipasmíðaiðnaðinn sem er á hverfanda hveli og þá er mikilvægt að láta ekki fljóta fram hjá sér þær framkvæmdir sem við getum haldið utan um hér á Íslandi. En ég vona að þessi þáltill. fái góða umfjöllun og hraða í þinginu því að þetta er mjög mikilvægt fyrir íslenskan iðnað að eflast og það er hægt að efla íslenskan iðnað ef við erum vakandi.