Arðgreiðslur SR-mjöls hf.

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 13:39:14 (5176)


[13:39]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. fjmrh. Ég vil spyrja hann í framhaldi af þeim fréttum að nýir eigendur fyrirtækisins SR-mjöls hf. hafa ákveðið á aðalfundi þess fyrirtækis að greiða sjálfum sér 10% arð eða 65 millj. kr. vegna góðrar afkomu fyrirtækisins á síðasta ári, hvort hæstv. fjmrh. telji eðlilegt að arður sem myndaðist vegna góðrar afkomu fyrirtækisins á árinu 1993, en þá er fyrirtækið í eigu ríkisins í 364 daga af 365, gangi til hinna nýju eigenda.
    Ég vil í öðru lagi spyrja hvort hæstv. fjmrh. telji að rétt sé eða skynsamlega að þessari sölu staðið í því ljósi að arðgreiðslan mun væntanlega nýtast fyrirtækinu til frádráttar frá hagnaði þegar til skattgreiðslna kemur þannig að í fljótu bragði verður ekki annað séð en málið snúi þannig að hinir nýju eigendur fái arð upp á 65 millj. kr. vegna rekstrarafkomu fyrirtækisins í rekstri á síðasta ári þegar það var í eigu ríkisins og jafnframt dragi svo þær arðgreiðslur frá væntanlegum eða mögulegum tekjuskattsgreiðslum fyrirtækisins til ríkisins á þessu ári. Og þá væri í einnig fróðlegt að heyra hvort hæstv. fjmrh. getur staðfest að það sé rétt að vélar og tæki SR hafi verið endurmetin við breytingu fyrirtækisins í hlutafélag og hækkaðar um á sjöunda hundrað millj. kr. og myndi þar með afskriftarstofn frá skattgreiðslum fyrirtækisins á komandi árum. --- Ég sé að hæstv. sjútvrh. hvíslar hér mikið að fjmrh. en ég er að spyrja hæstv.

fjmrh., ekki sjútvrh. og mér þætti vænt um að hæstv. sjútvrh. léti hæstv. fjmrh. í friði þannig að hæstv. fjmrh. heyrði spurningarnar sem er beint til hans en ekki sjútvrh.