Tvíhliða viðræður um stöðu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 14:04:20 (5198)


[14:04]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Ég tel, hæstv. forseti, að eftir efni ályktunar hafi það verið eðlilegt að kynna þá niðurstöðu fyrir Evrópusambandinu. Þessi afstaða okkar hefur líka verið kynnt rækilega á fundum með okkar samstarfsaðilum innan EFTA og innan Norðurlandaráðs og ég tel að þetta sé allt saman í réttum og eðlilegum farvegi. Það var auðvitað nauðsynlegt að sjá hvernig þessi mál þróuðust varðandi aðildarumsóknir hinna ríkjanna og ekki líklegt að kæmi neitt fast út úr viðræðunum við Evrópusambandið fyrr en menn sæju hvernig þeim viðræðum mundi lykta og sæju þar með hver yrði líkleg staða EFTA-ríkjanna á allra næstu árum.