Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 12:42:56 (5239)


[12:42]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að hin nýju stjórnsýslulög voru að sjálfsögðu höfð sérstaklega til hliðsjónar þegar rætt var um og komist að niðurstöðu um hvernig úthlutun úr þessum sjóðum skyldi fara fram. Ég tel að það sé einmitt vel séð fyrir því að þarna verði gætt fyllsta hlutleysis og hagsmunaárekstrar ættu ekki að eiga sér stað.
    Varðandi spurningu hv. þm., sem ég hafði ekki tíma til að svara áðan í andsvarinu, hvort menn létu sér í raun og veru detta í hug að lögin öðluðust gildi 1. júlí 1994, þá er sú gildistaka að sjálfsögðu miðuð við það í fyrsta lagi að málið verði afgreitt í þinginu núna, en 1. júlí er valinn vegna þess að þá er þetta úthlutunarferli einmitt í gangi í ráðunum þannig að gildistími síðar getur valdið ákveðnum vanda við úthlutunina í ár. Þetta er sem sagt ástæðan fyrir því og ég held að ég viti það rétt að þegar núverandi lög tóku gildi varð að setja bráðabirgðalög vegna þess að úthlutunin var í fullum gangi. Þetta er ástæðan fyrir því að 1. júlí er valinn.
    Ég nefni einnig í þessu sambandi að undirbúningur að gildistöku fjórðu rammaáætlunarinnar, sem ég gat um áðan, er í fullum gangi.