Heilbrigðisþjónusta

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 15:25:56 (5348)


[15:25]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er gott að fá umfjöllun um þetta viðkvæma og mikilvæga mál og það eru margar spurningar sem vakna. Ég tel að það fólk sem er starfandi allan sólarhringinn á sjúkrahúsinu, það hjúkrunarfólk sem vinnur allan sólarhringinn og er með sjúklingum allan sólarhringinn sé best til þessa starfs fallið og þess vegna þurfi að auka svigrúmið hjá því fólki sem vinnur nú þegar þessi störf með því kannski að fjölga hjúkrunarfólki á deildunum. Ég set við það mikið spurningarmerki að það komi ókunnugur aðili inn á deildirnar og ætli að tengjast sem trúnaðarmaður sjúklings --- nú hristir hv. flm. höfuðið og ég er kannski eitthvað að misskilja og þá er gott að fá við því svör. En mig langar að spyrja hv. flm.: Er fyrirmyndin fengin erlendis frá?
    Mig langar líka að spyrja varðandi ráðningu þessa trúnaðarmanna, það kemur fram í 1. gr. frv. að sjúkrahússtjórn ræður þennan trúnaðarmann að höfðu samráði við félag sjúklinga og aðstandenda þeirra. Ég skil ekki almennilega hver hugsunin er á bak við það og mig langar að fá svör við því hér.