Heilbrigðisþjónusta

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 15:44:28 (5352)


[15:44]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég skil að mörgu leyti röksemdir hv. flm. í þessu máli. Sérstaklega um nauðsyn trúnaðar. En ég vil enn vekja athygli á þeirri staðreynd og þeirri siðfræði sem gildir innan heilbrigðisstéttanna um það að starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar telji sig fyrst og fremst vera trúnaðarmenn sjúklinga og aðstandenda. Að mínu mati er mjög nauðsynlegt að sá trúnaðarmaður sem viðkomandi sjúklingur velur sér að tala við sé sá aðili innan þess stuðningsteymis sem sinnir sjúklingnum daglega en eins og við vitum þá eru mannleg samskipti þannig að það er stundum betra að tala við Pétur en Pál. Ég held að það komi af sjálfu sér þegar meðvitað teymi eins og er að myndast inni á sjúkrahúsunum vinnur vel saman, ekki síst eftir þá umræðu sem orðið hefur um siðfræði og um þessa heildarnálgun við meðferð sjúklings, þ.e. bæði andlegu, líkamlegu og félagslegu hliðina að þá muni þetta þróast á mjög eðlilegan hátt í þeirri þróun sem þegar er hafin innan sjúkrahúsa. En eins og ég sagði áðan finnst mér þetta frv. samt sem áður allrar athygli vert og góðra gjalda vert og ég mun að sjálfsögðu gera mitt til þess að jákvæð útkoma náist í heilbr.- og trn.