Embætti héraðsdýralækna

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:41:20 (5675)


[15:41]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Það er alveg rétt að við fulltrúar Kvennalistans reynum að vinna að bættum hag kvenna og auka þeirra hlut. Í þessu tilviki var ótvírætt um að ræða mjög hæfan umsækjanda ef ekki þann hæfasta sem sótti um. Ég ætla hins vegar ekki að dæma um það þannig að í því tilviki erum við ekki að tala um að það sé verið að hygla konum fram yfir aðra heldur er í þessu tilviki, held ég, um að ræða mjög hæfan umsækjanda þannig að ráðherra hefði ekkert sett niður við það að ráða þarna hæfa konu. Fyrir utan það að mjög fáar konur eru í þessari stétt, ef ég hef réttar upplýsingar, þá eru þrjár konur af 26 í slíkum stöðum þannig að það hefði verið mjög við hæfi. Það er spurning hvort það sé þá ekki rétt að fara að skoða þessar punktareglur, ef ráðherra telur að ekki eigi að fara eftir þeim reglum, og það sé þá kosið í héraði. Er það það sem verið er að tala um? Ég gat ekki betur heyrt en ráðherrann teldi að punktareglurnar ættu ekki lengur rétt á sér.