Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 18:58:25 (5771)


[18:58]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég kannaði það lítils háttar hjá starfsmönnum þingsins áður en ég gerði um það tillögu að máli færi til síðari umræðu hvernig eðlilegt væri að halda á því gagnvart nefnd og niðurstaðan varð sú sem fram kom í lok minnar framsögu að ég óskaði eftir því að tillagan bærist forsætisnefnd þingsins en ekki að henni yrði vísað með formlegum hætti til forsætisnefndar. Þetta var í rauninni hliðstætt því og gerðist með þessa tillögu sem efni máls samkvæmt er ætlað að vera til umfjöllunar hjá forsætisnefnd eftir flutning á sl. vori og forsætisnefnd hefur í krafti tillögunnar þegar nokkuð aðhafast í málinu. Hér er um mál þingsins að ræða sem varðar forustu þingsins. Hér er mál sem getur reynt á samstarf við þingflokka um málstilhögun og ég vænti þess að það þurfi ekki neinir formlegir meinbugir að vera á þessari málafylgju og að við getum fengið fram við síðari umr. sjónarmið forsætisnefndar áður en málið fer til lokaafgreiðslu í þinginu. Og ég efast um það að einstakar fagnefndir þingsins, sem við köllum svo, hafi í rauninni sömu möguleika til þess að fjalla um mál af þessu tagi, allshn. eða aðrar ágætar þingnefndir, svoleiðis að ég vona að þetta verði ekki ásteytingsefni, málinu verði ekki með formlegum hætti vísað til þingnefndar, en berist forsætisnefnd milli umræðna.