Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 15:10:36 (5932)


[15:10]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að ýmsar spurningar vakni vegna þessa frv. og m.a. sú sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni. Það sem ég átti við með að samþykktirnar gætu verið mismunandi er það að það verður samið við hvert og eitt sveitarfélag og þar sem ég er að tala um að málaflokkarnir geti verið misjafnir, það getur vel verið að sum sveitarfélög kjósi að fá málefni fatlaðra, annars staðar getum við verið að tala um sjúkrahúsin og heilsugæslustöðvarnar og þetta hlýtur að fara töluvert eftir stærð sveitarfélaganna.
    Vissulega er það svo að sum af þessum reynslusveitarfélögum mun væntanlega hafa sömu verkefni. Ég er að segja að ekki þurfi málaflokkarnir alls staðar að verða þeir sömu, þ.e. þá er ég að tala um fyrst og fremst fjöldann á málaflokkunum. Það getur verið að sum sveitarfélögin kæri sig ekki um það að taka yfir málefni fatlaðra eða eitthvað í félagslegum íbúðum en það vilji önnur sveitarfélög gera þannig að þetta er fyrst og fremst háð samkomulagi sem gert verði við hvert og eitt sveitarfélag. Varðandi stærð verkefnis þegar við erum að tala um stór verkefni eins og sjúkrahúsin o.s.frv. og heislugæslustöðvarnar, þá getur vel verið að minni sveitarfélög treysti sér ekki til þess að yfirtaka þau þannig að það getur vel verið að það geti verið um mismunandi málaflokka að ræða hjá sveitarfélögunum. Það er aðallega það sem ég átti við.