Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 17:28:54 (5963)


[17:28]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil einungis taka fram að ég er afar ósáttur við þá ákvörðun hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur að segja sig frá þessu máli með þeim hætti sem hún gerir í því bréfi sem hún sendir formanni nefndarinnar. Það lá allt það fyrir sem hún tekur fram í bréfinu þegar fjallað var um málið í nefndinni og það var fjallað mjög rækilega um þetta mál í efh.- og viðskn. á mörgum fundum og margir voru til kallaðir.
    Í framhaldi af þeirri umfjöllun sem varð í nefndinni hefur fjmrn. lagt sig fram um það að hafa samstarf um málið við starfsmenn nefndarinnar. Meiri hluti nefndarinnar lagði til, til þess að koma til móts við stjórnarandstöðuna, tillögu til breytinga á frv. þar sem einmitt er verið að taka á þessu sölumáli og reynt að tryggja það að salan gæti farið þannig fram að það mundi styrkja lyfjamarkaðinn í heild og skapa þarna enn þá betri samkeppnisaðstöðu og möguleika á því að fólk geti fengið ódýrari lyf en nú er.