Aðstoð við bændur vegna harðinda á síðasta ári

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:27:24 (6112)


[16:27]
     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó að ekki hafi verið mikið á þeim að byggja. Hæstv. ráðherra fór með nokkrar tölur. Hann nefndi að búið væri að áætla tjónið 252 millj. og Bjargráðasjóður hefði geitt út 45 millj. Þarna skilja á milli rúmlega 200 millj.
    Hæstv. ráðherra svaraði því engu, sem er þó í fsp., hvað hann reiknar með hárri upphæð til verkefnisins. Reiknar hæstv. ráðherra með því að 6. gr. ákvæðin muni brúa þetta bil? Ég spyr að gefnu tilefni þar sem ég spurði hæstv. fjmrh. hliðstæðrar spurningar fyrir nokkrum vikum og þá sagði ráðherra að það lægi ljóst fyrir að eingöngu væri um takmarkað fjármagn að ræða. Ég hlýt því að spyrja hæstv. landbrh. hvaða hugmyndir séu uppi varðandi þetta atriði.
    Ég verð einnig, virðulegi forseti, að vekja athygli á því að það hlýtur að vera mjög brýnt að farið verði í þessa vinnu sem allra fyrst ef á að koma á einhvern hátt til móts við bændur hvað þetta snetir.
    Ég vil að lokum nefna að hér hefur fyrst og fremst verið rætt um tjón vegna kals og skemmda á túnum og uppskerubrest vegna þess, en þá vil ég taka fram að það er annað tjón sem ég efast um að sé metið í þessu. Það er að það rekur enginn búskap í dag þannig að hann hafi af honum tekjur öðruvísi en fóðra til afurða með eigin fóðri, með heyi sem bændur afla sjálfir. En það eru mýmörg dæmi þess frá síðasta hausti að menn hafi náð að afla e.t.v. tilskilins fjölda af fóðureiningum en fóðurgildið er svo lágt að menn bera mjög mikinn kostnað af fyrir vikið.