Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 11:46:37 (6321)


[11:46]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því í þessu sambandi að heilbrigðisþjónustan hér á Íslandi er kostuð af ríkinu og það eru engar hugmyndir uppi um það eða ekki alvarlegar eða marktækar hugmyndir, það heyrist af og til í Sjálfstfl. en það gerir enginn neitt með það og m.a. ekki fjmrh. En það eru engar marktækar hugmyndir uppi um það að einkavæða heilbrigðisþjónustuna eða selja spítalana og gera þá að hlutafélögum eða heilsugæslustöðvarnar. Af þeim ástæðum er eðlilegt að lyfjaverslunin rími að einhverju leyti við heilbrigðisþjónustuna og þess vegna tel ég að það sé eðlilegt að ríkið eigi eina lyfjaverslun af þessu tagi og annist þær skyldur sem kveðið er á um í lögum um Lyfjaverslun ríkisins, m.a. fyrir Almannavarnir og fleiri slíka aðila. Og ég vil láta það koma fram að ég tel að tillaga hv. efh.- og viðskn. um lyfjaforða og öryggisbirgðir lyfja sé of óljós og óskýr eins og hún er orðin. Ég tel þess vegna að það sé óhjákvæmilegt og skynsamlegt að ríkið eigi svona fyrirtæki. Ég tel að ríkið eigi ekki að eiga öll fyrirtæki, það eigi að vera hægt að einkavæða fyrirtæki og auðvitað er það svo, en þetta fyrirtæki eigi ríkið í grófum dráttum að eiga.
    Ég fagna því síðan að hv. 6. þm. Norðurl. e. tekur í raun og veru undir þessi sjónarmið og sömuleiðis það, sem kannski skiptir öllu máli, að fjmrh. eigi núna alveg endilega að beita sér fyrir því að þetta mál fái meðferð á réttum vettvangi, þ.e. milli fjmrh. og fulltrúa viðkomandi starfsmanna. Það sé ekki verið að setja lög ofan í hausinn á stéttarfélögunum í andstöðu við þau á sama tíma og viðræður við þau standa yfir.