Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 11:53:31 (6325)


[11:53]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst vegna andsvaranna sem hérna áttu sér stað áðan láta það koma fram að ég er sammála því sem reyndar kom kannski fram hjá virðulegum hv. ræðumanni að það er erfitt að beina fyrirspurnum til annarra en þeirra sem geta tekið til máls undir þessum lið andsvaranna. Ég vil einnig að það komi fram hérna vegna umræðu um stjórn forseta að það hefur komið fram hjá mér að mér finnst eðlilegt að 3. umr. fari fram ekki strax í framhaldi af þessari þannig að tækifæri gefist til fyrir þá sem þurfa að ræða málið að koma að 3. umr. málsins. Þar er verið að tala um frsm. nefndarinnar, en jafnframt hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, sem mér skilst að komi í næstu viku, ef ég veit rétt.
    Enn fremur vil ég að það komi hér fram vegna umræðna sem hafa orðið að ef frv. verður ekki að lögum í þessari viku sé ég að það er einsýnt fyrir mig eða þá hv. nefnd að flytja brtt. við 3. umr. til þess að fá meiri tíma m.a. til að ræða við starfsfólk fyrirtækisins og aðra þá sem að þessu máli koma því gildistakan 1. maí getur ekki gengið upp eins og fram hefur komið. Þessu vildi ég koma fram vegna fundarstjórnar forseta að það megi vera ljóst í hvaða farvegi þetta mál verður.
    Um það hvort það sé þingflokksfundur hjá sjálfstæðismönnum vil ég að það komi fram að í gær var eitt stjfrv. til umræðu á þingflokksfundi sem stóð til kl. 19.30. Þar var ákveðið að þeir þingmenn sem vildu hafa áhrif á það mál gætu komið saman kl. 11 í morgun. Ég held að það sé mjög algengt að þingmenn komi saman á þingtíma ef tryggt er að þeir sem þurfa að taka þátt í umræðunum séu viðstaddir þær. Ég vil að það sé alveg ljóst að ég hef verið hér hverja einustu mínútu í þingsalnum eða í hliðarherbergi meðan þessi umræða hefur farið fram. Ég held að það sé ekki hægt að krefjast annars heldur en að þeir séu við umræðuna sem þurfa að vera við hana, en ég tek eftir því að það vantar suma þingmenn stjórnarandstöðunnar ekki síður.
    Ég vona, virðulegi forseti, að þetta skýri málið og vona jafnframt að þessi fundur þingmanna sjálfstæðismanna verði ekki til þess að umræðan um þetta mál frestist. Og ef óskað er eftir viðveru einhvers

þeirra þingmanna sem á þeim fundi eru þá er sjálfsagt að verða við þeim óskum og ná til þess þingmanns.