Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 17:45:28 (6356)


[17:45]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna biðlaunaréttarins vil ég taka það fram að í 3. gr. er sagt að Lyfjaverslunin skuli haga störfum sínum þannig að fastráðnir starfsmenn hennar skuli hafa rétt hjá nýja fyrirtækinu. Það er skylda sem lögð er á þetta fyrirtæki þrátt fyrir formbreytingu og þrátt fyrir sölu. Það er það lagaskylda samkvæmt frv., verði það samþykkt, að fyrirtækið haldi þessum starfsmönnum. Ég tek það fram að það eru ekki bara réttindi það eru líka skyldur sem hér eru á ferðinni. Og það er þá sneitt fram hjá þessum ágreiningi með því að taka það fram að þá skuli biðlaunarétturinn ekki gilda. Ég trúi því að það verði niðurstaða þótt dómstólar fjalli um málið.
    Það er ekki hægt að jafna þessu saman við það sem hv. þm. sagði um samninga og svo væri gengið á bak við samninga skömmu eftir að þær væru undirritaðir. Hins vegar finnst mér að hv. þm. hefði getað --- ef ég skildi hann rétt, (Gripið fram í.) Nei, sé það ekki þá fer ég ekki frekar út í þá sálma.
    En það vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi skýrt fram að það hangir saman að það er skylda fyrirtækisins að ráða starfsmennina í sams konar og eins störf. Það er auðvitað það sem hefur úrslitaþýðingu í þessu máli. Og bara til þess að sýna hvað það væri ósanngjarnt ella þá gæti það gerst að einhver segði upp hjá Lyfjaverslun ríkisins t.d. á morgun eða hinn. Hann hefur engan biðlaunarétt ef hann fer annað. Þessi réttur safnast því ekki upp eins og lífeyrisréttur og önnur réttindi ýmis sem starfsmenn eiga.