Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 16:19:12 (6409)


[16:19]
     Frsm. minni hluta sjútvn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara út í frekari efnisumfjöllun um þetta mál. Það er út af fyrir sig alveg rétt að það er ósátt um þetta mál við marga hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Ég vil ekkert gera lítið úr þeirra áliti. Ég hef aðeins sagt að þeirra álit eigi ekki eingöngu að ráða í þessu máli. Ég minni á það að inngreiðslurnar á árunum 1990 og 1991 fóru fram í verulegri ósátt við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Þeir voru hins vegar ekkert ósáttir við það að taka á móti þeim peningum þegar þeir voru greiddir út 1992. Þannig er það oft í þessum málum og ég hefði haldið að þeir hefðu nokkuð lært af því.
    Aðalatriðið er að það þarf að ljúka þessu verki. Það þarf að ljúka því verki sem hafið var með þessu nefndarstarfi, þ.e. hvað á að taka við. Hvers konar sveiflujöfnun á að taka við? Það er aðalatriði málsins. Það á ekki að leggja þennan sjóð niður, a.m.k. ekki fyrr en það er vitað hvað tekur við. Ég met það svo að hæstv. ráðherra vilji taka mið af því í framhaldinu enda er ekkert verið að borga inn í þennan sjóð og því miður ekki líkur á því að svo verði. Þess vegna held ég að það sé eðlilegast þar sem þessum fundi átti að ljúka mjög fljótlega að þessari umræðu verði frestað og málið kannað á næstunni því ég held að það sé langbest að taka einhverja daga í það og fresta umræðunni á meðan. Því vil ég fara þess á leit, hæstv. forseti, að í ljósi þessara ummæla hæstv. ráðherra, sem ég met og tel mikilvæg, þá verði umræðunni frestað enda átti þessum fundi að ljúka mjög fljótlega.