Lífeyrissjóður sjómanna

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 17:28:16 (6566)


[17:28]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom reyndar ekkert fram í þessari svarræðu sem ástæða er til að svara annað en það að athugasemd mín var sú að þær athugasemdir sem hv. þm. lét getið skyldu ekki koma við 2. umr. Það hefði hjálpað okkur. Ég er ekkert að mótmæla því að hægt sé að taka þetta upp við 3. umr. en ég bendi á að hv. þm. er í sama flokki og einn af nefndarmönnunum sem skrifaði undir nál. og ég minni á, sem hv. þm. þekkir ósköp vel, að hann er kannski allra þingmanna mest kunnugur forsögu þessa máls því að ég hygg að hann hafi öðrum þingmönnum fremur átt kost á því að kynna sér málið þegar það var til umræðu fyrir rúmum áratug og aldurinn var styttur eins og hann gat um. Ég hygg nefnilega að hv. þm. hafi komið nær því máli en hann vill kannski vera láta.