Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:47:13 (6629)


[00:47]
     Finnur Ingólfsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. áðan þá hafa orðið sinnaskipti hjá hæstv. ráðherra og alger stefnubreyting í þessu máli. Hann talaði nákvæmlega í anda stjórnarandstöðunnar, þeirra málefna sem hún hefur verið að berjast fyrir í minni hluta heilbr.- og trn. Ég tek því undir það með hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni að á þessum tímapunkti hlýtur það að vera afskaplega mikilvægt fyrst formaður hv. heilbr.- og trn. leggur það mikla áherslu á að menn ræði nú málið í botn í þingsalnum að hv. þm. Geir H. Haarde kalli til þá stjórnarsinna sem í hv. heilbr.- og trn. eru og fái þá til að taka þátt í umræðunni fyrst hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson vill velja þennan vettvang til umræðna til að komat til botns í málinu.
    Ég ætla ekki að skjóta mér undan því að taka þátt í umræðu þó að hún teygist eitthvað fram á morgun, síður en svo, en minni á það að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson var í forsetastóli á síðasta þingi og ég minnist þess að einn fimmtudaginn óskaði einn hv. þm. eftir því að fundi yrði frestað. Það var bara um miðjan fimmtudag. Þá sleit hv. þm. fundi rétt áður en dómsmrh. gekk í salinn sem ætlaði að fara að mæla fyrir nokkrum málum, en dómsmrh. var bara of seinn. Hv. þm. var búinn að slíta fundinum. Ég held að þetta sé ekki misminni hjá mér. Það væri því allt í lagi að staldra örlítið við núna þegar komið er á annan sólarhring.