Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 11:51:36 (6701)


[11:51]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að vísa því á bug að í starfi tvíhöfða nefndar hafi ekki verið haft samráð við þá aðila sem málið snertir. Í starfi nefndarinnar var haft mikið samráð. Nefndin fór fundaherferð hringinn í kringum landið og hlustaði á sjónarmið væntanlega 1.500 manns sem komu á þessa fundi, það voru haldnar margar og langar ræður og síðan gerði nefndin breytingar á sínum tillögum í framhaldi af þessari fundaherferð. Hins vegar liggur það alveg fyrir að margir áttu eftir ýmislegt ósagt við nefndina og við stjórnarflokkana þrátt fyrir allt þetta samráð. Ég hygg að það verði seint fjallað svo um þetta mál að menn þykist hafa talað út um það.
    Það vekur hins vegar athygli mína að það er mikill mismunur á afstöðu Framsfl. og Alþb. til framsalsmálsins og það sýnir kannski betur en margt annað hvað það er erfitt að feta hinn vandrataða meðalveg í þessu máli þar sem menn geta verið svona nokkurn veginn sáttir og við málið unað.
    Varðandi útgangspunkt nefndarinnar um það hvað er ósanngjarnt verð þá er það mín skoðun eftir viðræður við fulltrúa sjómannasamtakanna að ef segjum sem svo að fiskkaupandi norður í landi sé að greiða um 60 kr. fyrir kíló af þorski af eigin skipum og kaupi síðan þorsk af skipi sem gert er út einhvers staðar annars staðar og borgi fyrir það 70 kr. á kíló þá er mjög erfitt fyrir sjómannasamtökin að segja með einhverjum rökum að 70 kr. verðið sé ósanngjarnt og það þurfi að hækka.