Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 12:21:23 (6713)


[12:21]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem liggur fyrir eftir þetta svar hv. 6. þm. Norðurl. e. er það að hann telur að það eigi ekki að ganga lengra til móts við þær óskir sem uppi voru um skerðingu á framsalinu en gert er ráð fyrir í þessu tiltekna frv. Það liggur í augum uppi og það liggur alveg fyrir að aðgerðir af því taginu og ákvörðun af því taginu hefði ekki leyst þá kjaradeilu sem uppi var. Við skulum ekki gleyma því að þessi kjaradeila snerist um þetta grundvallaratriði. Hún snerist um það að sjómenn töldu að þær framsalsreglur sem eru í núgildandi lögum gætu leitt til þess að þeir væru hlunnfarnir. Þess vegna þyrfti að gera breytingar á þeim lögum. Það er verið að gera með öðrum breytingum á öðrum lögum og mér er alveg fullkunnugt um það að sjómannahreyfingin hefur lýst efnislegum stuðningi við þær breytingar. Það er því rangt hjá hv. þm. að sjómannahreyfingin í landinu sé eitthvað út og suður varðandi það mál. Sjómannahreyfingin styður þær breytingar sem er verið að leggja til.