Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:37:02 (6766)


[18:37]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að einhvers konar skriflegir samningar um þessi viðskipti séu algjört grundvallaratriði í þessu máli og að þeir samningar skuli aðgreina og tilgreina þau verðmæti sem eru að skipta um hendur, annars vegar veiðiheimildir og hins vegar afla. Þá fyrst er hægt að skoða hvað er að gerast og hvað er á ferðinni. Og auðvitað þýðir þá ekki að setja bara hvaða tölur sem er á blað því menn vita um tiltekin markaðsverð sem eru í gangi í þessum efnum. Það mundi ekki líta mjög trúlega út t.d. eins og leigukvótinn er verðlagður þessa dagana upp undir 70 kr. kílóið af þorski ef menn færu allt í einu að sýna samninga þar sem það væri skráð á 15 kr. Ætli nefndinni þætti ekki eitthvað bogið við það?
    Varðandi afgreiðslu mála hér 1990 og breytingar á afstöðu Alþb. þá ætti hv. þm. bara að tala varlega aftur. Ég minni hann á það að hann er búinn að vera greiðandi atkvæði í hverju málinu á fætur öðru í vetur sem hann hefur verið algjörlega á móti og er það ekki öllu alvarlegra mál heldur en hitt. Þó svo væri að Alþb. hefði að einhverju leyti breytt um áherslur síðan 1990, enda ekki dauður flokkur, þá held ég að það væri ekki tiltökumál.