Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:45:56 (6772)


[18:45]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Um mönnun nefndarinnar var ég eingöndu að benda á að um það mætti svo sem deila eða spyrja en ef það er svo að um það sé fullt samkomulag allra aðila þá er það gott og að sjálfsögðu höfum við það þá þannig. Það er nú samt þannig að einn af gestum sjútvn. á undanförnum sólarhringum hafði spurningar varðandi þetta atriði og þess vegna nefndi ég það. En það má kanna betur þegar málið er til vinnslu í nefndinni.
    Það er alveg ljóst að það var nauðvörn sjómannasamtakanna að grípa til þeirra ráða sem þau gerðu sl. vor og segja sig frá samstarfi um frekari stefnumótun varðandi lögin um stjórn fiskveiða af því að það var ekkert á þeirra sjónarmið hlustað og því fór sem fór. Og það er auðvitað ekki hægt að stilla málum þannig upp að þar með hafi ekkert verið hægt að tala við mennina. Það er ekki þannig þegar mál eru hlaupin í hnút. Hvað sem menn segja út á við þá verða menn að leita leiða til að koma samtölum aftur í gang, koma vinnu í gang, ef menn vilja reyna að leysa deiluna. Það var það sem brást. Ég tel að hæstv. sjútvrh. hafi þar ekki staðið í stykkinu að hann skyldi ekki reyna með einhverjum ráðum að koma aftur á stjórnmálasambandi og viðræðum í gang og vinnu í gang þó það væri kannski á bak við tjöldin til að byrja með. Þannig voru hlutirnir einfaldlega vaxnir. Það þýðir einfaldlega ekki að skella skollaeyrum við þegar öll sjómannastéttin grípur til aðgerða af þessu tagi. Það verður enginn sjávarútvegur rekinn á Íslandi nema með sjómönnum. Það ætti a.m.k. hæstv. sjútvrh. að vita allra manna best.