Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 17:28:20 (6937)


[17:28]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Auðvitað var það réttur tími sem var valinn til að selja verksmiðjurnar þegar vel árar og allar getsakir um annað eru út í bláinn. Þegar hv. 3. þm. Vesturl. spyr um það af hverju Akureyrarbær hafi ekki fengið frest þá liggur málið einfaldlega þannig að sú beiðni kom fram eftir að fresturinn var útrunninn. Akureyrarbær fékk öll sömu tækifæri og aðrir, hafði alveg sömu tækifæri og aðrir að fá sömu upplýsingar og hafði sömu fresti og fyrst hinir gátu sett fram tilboð þá hefði Akureyrarbær auðvitað getað gert það ef hann hefði tekið við sér í tíma. ( Gripið fram í: Af hverju lá svona mikið á?) Svo kemur hér svolítið einkennilegt upp þegar talsmenn Framsfl. og Alþb. eru búnir að tala. ( ÓÞÞ: Við hverjum er verið að veita andsvar?) Hv. 2. þm. Vestf. sagði í sinni ræðu að það hefði skort á að markaðurinn hefði fengið að ráða. Hv. 3. þm. Vesturl. segir svo, það gekk of langt hvað markaðurinn fékk að ráða. Og svo eiga menn að taka mark á þeirri gagnrýni sem svona er borin fram og gengur hvor í sína áttina.
    Varðandi þau sjónarmið sem uppi voru um það hvort endurmeta hefði átt stofnefnahagsreikninginn þá er rétt að minna á það sem hæstv. fjmrh. hefur sagt að Ríkisendurskoðun staðfesti afstöðu sjútvrn. í því efni. Ef hin leiðin hefði verið farin þá hefði verðið orðið lægra og verksmiðjurnar hefðu eðlilega fengið að yfirfæra uppsafnað tap og hefðu ekki borgað skatta í mörg, mörg ár. En í stað þess borga þær núna á þessu ári væntanlega um 60 millj. kr. í tekju- og eignarskatta sem þær hefðu ekki greitt ef fyrirtækinu hefði ekki verið breytt og stofnefnahagsreikningnum hefði ekki verið breytt, þá hefði það enga skatta greitt til ríkisins á þessu ári eins og það mun hins vegar gera.