Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 01:33:33 (7056)

[01:33]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég vil bara í allri vinsemd spyrja hvað standi til með fundarhaldið. Ég hafði gefið mér það satt best að segja að við hlytum að láta nótt sem næmi þegar þessari miklu umræðu lyki sem hefur staðið í allan dag í ljósi þess einnig að nú er búið að boða fund strax hálfellefu í fyrramálið sem er frekar óvenjulegt að í byrjun viku hefjist fundir dag eftir dag á þeim tíma. Hér hafa verið á dagskrá ýmist á nefndarfundum eða í umræðum síðan klukkan átta eða níu í morgun málefni sem tengjast sjávarútveginum nánast stanslaust og á morgun klukkan hálfellefu á að hefjast umræða um fyrirliggjandi mál á sviði sjávarútvegs og væntanlega standa til kvölds eða þess vegna fram á nótt.
    Ég segi alveg eins og er að mér finnst þetta vera orðið nokkuð stíft áframhald. Ef ég man rétt þá er ég á mælendaskrá, e.t.v. fyrstur, í því máli sem nú á að hefja umræðu um og ég hafði hugsað mér að fylgjast með. Ég tel mig í sjálfu sér ekki neitt heysknari við vinnuna en hvern annan og reyni að ástunda sæmilega mætingu og þátttöku í þingstörfunum en ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta vera orðið ágætt í dag og miðað við framhaldið sem er hjá okkur á morgun og þau verkefni sem þá liggja fyrir er mér spurn hvort ekki sé hægt að hagræða þessu einhvern veginn þannig að ekki þurfi að standa hér lengri fundur í nótt.
    Ég vil inna forseta eftir því hvaða áform eru um fundarhaldið.