Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 11:50:59 (7094)


[11:52]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. tók það fram, að mér skilst, að hann hafi einskis iðrast jafnmikið og að styðja og samþykkja þau lög sem gilda um málið og voru samþykkt fyrir fjórum árum. Ég hygg að það sé ýmislegt í fortíð hv. þm. sem hann ætti að iðrast meir heldur en þess gjörnings. Reyndar lét hv. þm. gamminn geysa út um víðan völl sem sýndi kannski að honum var ekki mjög niðri fyrir út af þessu máli.

Hann lét hugann reika til Brussel og fjallaði um afstöðu Framsfl. til Evrópusambandsins, hann fann sér tíma til að fjalla um sumartíma, frídaga og orlof og ég er rauninni alveg steinhissa á því að þingmaðurinn skyldi ekki tala um áhugamál sitt, friðun hagamúsa, í þessu sambandi.
    Varðandi eitt mál sem hann kom inn á, þ.e. krókaveiðarnar, þá er ekki hægt að setja þak á veiðar hvers báts, svo sem eins og 50 tonn eða slíkt, vegna þess að það eru um 1.000 bátar í gangi og útgerðarmynstur þessara báta mundi þá breytast. 1.000 sinnum 50 eru 50.000 tonn. Og þess vegna verður að setja heildarþak á afla þessara báta til þess að einhverrar sanngirni sé gætt varðandi veiðar þeirra miðað við veiðar annarra. Svo er eitt sem er mjög athyglisvert. Það er að rísa upp stétt svokallaðra krókagreifa, manna sem eiga krókatrillur en leigja þær út, m.a. til sjómanna sem voru svo óheppnir á sínum tíma að velja kvóta á trillur sínar. Það hefur í rauninni enginn veitt þeim hópi jafnmikla athygli og tvíhöfða nefnd, sem með tillögum sínum gerði ráð fyrir því að fluttur væri afli af krókatrillunum yfir á þessa menn sem voru svo óheppnir að halda að þau lög sem Hjörleifur Guttormsson samþykkti, ásamt öðrum, mundu gilda áfram.