Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 13:09:40 (7107)


[13:09]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það mál vel vera að það sé rétt hjá hv. þm. að menn finni einhverjar aðrar leiðir í þessu sambandi, vista á öðrum skipum og reyni að finna nýjar leikreglur til að ekki verði dregið úr hagkvæmninni. Hver er þá tilgangurinn með þessu? Ég tel langalvarlegast að það er mismunun á milli skipanna. Ef menn vilja setja þessa 15% reglu væri miklu nær að setja hana í sambandi við öll viðskipti, líka innan eigin útgerðar. ( VE: Innan eigin útgerðar eru ekki viðskipti.) Það eru að sjálfsögðu viðskipti innan sama fyrirtækisins. Hv. þm. veit að fyrirtæki eru oft rekin í mörgum deildum og maður getur litið á sérhvert skip sem eina deild. Það er enginn grundvallarmunur á því. Auðvitað eru verðmætafærslur á milli skipanna og það á að meðhöndla allar verðmætafærslur eins og ef menn vilja endilega hanga í þessari 15% reglu, sem ég er andvígur, þá ættu menn að gera það þá þannig að það væri í hverju einasta tilviki. Þá gæti ég best trúað að menn færu fyrst að hika því að það kæmi þá við miklu fleiri, m.a. á stórútgerðirnar í landinu, en menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það skuli meðhöndla þá stærri miklu betur en þá smærri. Það er merkileg pólitísk stefna en það er hins vegar ekkert annað en staðreynd að það er sú stefna sem menn hafa ákveðið að taka upp í þessu sambandi.