Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 21:10:06 (7162)


[21:10]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil upplýsa hv. þm. Guðna Ágústsson um það að ég tala mikið við menn úr atvinnugreininni. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir þær breytingar sem verið er að gera á lögunum um stjórn fiskveiða nú þá verður hægt að flytja kvóta af skipi sem ekki ætlar að veiða hann yfir á skip sem ætlar sér að veiða þann kvóta. Þetta verður hægt og þetta er grundvallaratriði í framsalskerfinu.
    Það er tvennt sem menn þurfa að þróa í framhaldi af þessum breytingum. Í fyrsta lagi eru það framvirkir samningar þar sem menn gera samning um kaup á aflaheimild sem eru ekki afhent eða færð yfir á skip fyrr en að því kemur að það þarf að veiða viðkomandi aflaheimild.
    Í öðru lagi þarf að þróa sérstaka samninga um vistun á varanlegum aflahlutdeildum á skipum sem eru ekki í eigu viðkomandi aðila. Þetta mun örugglega gerast í framhaldi af þessum breytingum sem verið er að gera á stjórn fiskveiða og þær munu halda fullri hagkvæmni í framsali og í kvótakerfinu en enn fremur gera viðskiptin með aflaheimildir og allt kerfið ásættanlegra fyrir sjómenn sem ég held að hljóti líka að vera markmið okkar beggja, mín og hv. þm. Guðna Ágústssonar.