Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 21:58:38 (7173)


[21:58]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég óska hér eftir andsvari vegna þeirra orða sem hv. 3. þm. Vesturl. beindi til mín í ræðu sinni áðan. Ég les það einhvern veginn af ræðu hv. þm. að hann hefur alveg misskilið þetta kvótakerfi í grundvallaratriðum. Það hefur aldrei nokkurn tímann staðið til að kvótakerfið ætti að fjölga fiskum í sjónum. Það hefur ekki nokkrum manni komið til hugar. Og þeir útreikningar hjá hv. þm. hér áðan, að minni afli á hvern úthaldsdag væri núna staðreynd. Það er auðvitað mjög einfalt að skýra það og þarf ekki langa útreikninga til. Þegar sami floti, þ.e. jafnmörg skip, eru jafnmarga daga á sjó að veiða annars vegar 270 þús. tonn af þorski og hins vegar 180 þús. tonn af þorski þá hlýtur aflinn á úthaldsdag að minnka. Þannig að þetta segir sig alveg sjálft og var bara ekkert um það í ræðu minni fyrr í þessari umræðu. Ég var hins vegar að benda á það að með því skipulagi sem komið var á þá hefði útgerðarmönnum tekist á fyrsta ári að spara í útgerðarkostnaði á bilinu 15--20%. Það er kvótakerfið sem hefur gert það að verkum að nú geta menn náð fram hagræðingu í rekstri fyrirtækjanna. Og vegna þess að aflinn er minni þá þurfa menn að nota hagræðinguna og sparnaðinn til þess að lækka kostnaðinn á hverja sóknareiningu og það er það sem hefur tekist.